Innlent

„Stórskotalið“ í Þórsmörk kom rútunni úr Krossá

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Svona var komið fyrir rútu Teits Jónassonar, sem var á leið í Þórsmörk, í dag.
Svona var komið fyrir rútu Teits Jónassonar, sem var á leið í Þórsmörk, í dag. vísir/vilhelm

Rúta sem festist í Krossá í Þórsmörk í dag er komin úr ánni. Skálavörður segir það „stórskotaliði á svæðinu“, sem lagðist á eitt, að þakka. 

Greint var frá því að rúta fyrirtækisins Teits Jónassonar hafi fest í Krossá í dag. Beðið var með að gera atlögu að því að losa rútuna klukkan sex vegna mikils straums árinnar. Nú er hins vegar búið að draga rútuna upp á árbakkann, að sögn Heiðrúnar Ólafsdóttur, skálavarðar í Langadal.

„Þetta gekk hægt og illa,“ segir hún í samtali við fréttastofu. „Björgunarsvetin Dagrenning á Hvolsvelli kom með trukk, hér var trukkur frá húsadal og dráttavél. Það toguðu allir í einu í bílinn og þetta tókst um níuleytið.“

„Það vildi svo til að hér var stórskotalið sem var í fríi hérna og kom og aðstoðaði. Reynt fólk sem hefur verið í þessari á mjög lengi. Það bjargaði þessari á upp úr.“

Rútan var án farþega en tveir bílstjórar Teits Jónassonar voru í rútunni sem var bjargað af skálavörðum. 

Samkvæmt heimildum fréttastofu festist önnur rúta Teits Jónassonar í Steinsholtsá í Þórsmörk fyrr í dag. 

Heiðrún segir það hins vegar heyra til undantekninga að rútur festist í ánum. Það gerist aðeins þegar rútur hafi ekki drif á öllum hjólum, líkt og sú sem festist í Krossá. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×