Handbolti

Gísli Þorgeir beit fast á jaxlinn og Magdeburg vann Meistaradeildina

Hjörvar Ólafsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson í úrslitaleiknum í dag. 
Gísli Þorgeir Kristjánsson í úrslitaleiknum í dag.  Vísir/Getty

Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði sex mörk úr átta skotum þegar lið hans, Magdeburg, vann Meistaradeild Evrópu í handbolta með 30-28 sigri sínum gegn pólska liðinu Kielce í úrslitaleik keppninnar í Lanxess Arena í Köln í dag. Gísli Þorgeir spilaði lungann úr leiknum þrátt fyrir að hafa farið úr axlarlið í undanúrslitaleik Magdeburgar og Barcelona í gær. 

Gísli Þorgeir fór úr axlarlið þegar Magdburg tryggði sér sæti í úrslitaleiknum með sigri gegn Barcelona í undanúrslitum í gær. Til þess að spila þennan leik var Gísli Þorgeir sprautaður í öxlina og mun hann svo fara í aðgerð vegna meiðsla sinna seinna í sumar. 

Jafnt var, 26-26, eftir venjulegan leiktíma og þar af leiðandi þurfti að framlengja leikinn. Nikola Portner varði tvö skot í síðustu sókn Kielce í lokasókn venjulegs leiktíma og Portner varði fyrsta skot framlengingarinnar. 

Gísli Þorgeir braut svo ísinn í framlengingunni og kom Magdeburg á bragðið. Gísli Þorgeir nældi svo í vítakast á lokaandartaki fyrri hluta framlengingarinnar og Kay Smits skilaði boltanum rétta leið. Staðan 28-27 fyrir Magdeburg í hálfleik í framlenginunni. 

Michael Damgaard jók svo muninn í 29-27 eftir klippingu með Gísla Þorgeiri sem kom svo Magdeburg í 30-28 rúmri mínútu fyrir leikslok með sjötta marki sínu í leiknum. Lokatölur í leiknum urðu svo 30-29 Magdeburg í vil. 

Smits var markahæsti leikmaður Magdeburg í leiknum með átta mörk en Alex Dujshebaev skoraði mest fyrir Kielce átta mörk sömuleiðs. 

Þetta er í fjórða skipti sem Magdeburg vinnur Meistaradeildina en liðið vann síðast árið 2002 en þá léku Ólafur Indriði Stefánsson og Sigfús Sigurðsson með liðinu og Alfreð Gíslason var við stjórnvölinn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×