Innlent

Þrýst verði á Guð­rúnu að fylgja stefnu Jóns

Árni Sæberg skrifar
Bjarni var brattur þegar hann bar að Bessastöðum.
Bjarni var brattur þegar hann bar að Bessastöðum. Vísir/Vilhelm

Formaður Sjálfstæðisflokksins segir að staðan í útlendingamálum sé grafalvarleg og þrýstingur verði á Guðrúnu Hafsteinsdóttur, sem tekur við embætti dómsmálaráðherra í dag, að fylgja eftir stefnu Jóns Gunnarssonar í málaflokknum.

Síðasti ríkissráðsfundur Jóns Gunnarssonar, allavega í bili, hefst eftir örskamma stund. Guðrún Hafsteinsdóttir, fyrsti þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, tekur við starfi dómsmálaráðherra af honum að fundi loknum.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, kynnti breytingarnar á fundi þingflokks í gær, en þær voru upphaflega tilkynntar þegar ríkisstjórnin var mynduð fyrir tæpum 19 mánuðum.

Útlendingamálin kosti tíu milljarða

Á leið inn á Bessastaði fyrir skömmu sagði Bjarni að þrýst yrði á Guðrúnu að fylgja stefnu Jóns í útlendingamálum eftir. Hann segir að undanfarin ár hafi þingið brugðist í útlendingamálum og að breytinga væri þörf þar sem kostnaður af málaflokknum sé kominn yfir tíu milljarða á ári.

Þá útilokaði Bjarni ekki að frekari hrókeringar yrðu innan ráðherraliðs Sjálfstæðisflokksins.

Jón hefði viljað fylgja málunum eftir sjálfur

Sjálfur sagði Jón að það væri eins með sig og aðra í pólitík. Hann gjarnan viljað getað fylgt eftir og klárað þau mál sem hann hefði lagt hug og hjarta í. Vísaði hann til málefna innflytjenda og hælisleitenda auk heimilda lögreglunnar. Hann sagði að hann myndi engin afskipti hafa af Guðrúnu í starfi. 

„Nei, nei, ég kem ekki nálægt öxlinni á henni, nema hún óski eftir því,“ sagði Jón.

„Þetta legst mjög vel í mig. Takk fyrir. Ég tek á þeim málum [útlendingamálum] af festu eins og öllum málum sem bíða mín,“ sagði Guðrún áður en hún dreif sig inn á sinn fyrsta ríkisráðsfund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×