Þetta kemur fram í tilkynningu frá BSRB. Samningurinn var undirritaður af samninganefndum deiluaðila þann 10. júní síðastliðinn en BSRB hafði áður staðið í verkfallsaðgerðum í þrjátíu sveitarfélögum á meðan ekki náðist að semja.
Samkvæmt hinum nýja samningi munu mánaðarlaun hækka um að lágmarki 35.000 krónur og desemberuppbót á árinu 2023 verður 131.000 krónur. Þá náðist einnig samkomulag um sáttagreiðslu að upphæð 105.000 krónum auk þess sem samið var um hækkun á lægstu launum og viðbótargreiðslur fyrir tiltekin starfsheiti.
„Niðurstaðan er afgerandi og endurspeglar að félagsfólk er hóflega sátt með þennan samning. Það er óþolandi að það hafi þurft svo umfangsmiklar aðgerðir til að ná fram réttlátum og sanngjörnum kröfum þeirra. Verkföllin skiluðu þó meira en kjarabótum því þau sýndu sveitarfélögunum svart á hvítu hversu ómissandi starfsfólk þeirra er,“ er haft eftir Sonju Ýr Þorbergsdóttur formanni BSRB í tilkynningunni.
„Með þessum kjarasamningum var tekið skref í rétta átt til að launin endurspegli raunverulegt verðmæti þeirra starfa – en baráttan heldur áfram og við höfum þegar hafið undirbúning fyrir gerð næstu kjarasamninga.“
Niðurstöður atkvæðagreiðslna félagsmanna BSRB:
Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi, 95,92% samþykktu
FOSS – stéttarfélag í almannaþjónustu, 90,33% samþykktu
Kjölur – stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu, 91,7% samþykktu
Starfsmannafélag Garðabæjar: 88,54% samþykktu
Starfsmannafélag Suðurnesja, 94,16% samþykktu
Starfsmannafélag Vestmannaeyja, 95,1% samþykktu
Starfsmannafélag Mosfellsbæjar, 90,83% samþykktu
Starfsmannafélag Kópavogs, 92% samþykktu
Starfsmannafélag Húsavíkur, 93,33% samþykktu
Starfsmannafélag Hafnafjarðar, 91,02% samþykktu
Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu (Seltjarnarnes og Akranes), 87,96% samþykktu