„Staðan er í greiningu þannig við höfum ekki yfirsýn. En gæfa okkar er að vera fjarkennsluháskóli. Við gátum flutt skrifstofurnar í húsin á háskólasvæðinu auk þess sem við erum með skrifstofur í Reykjavík líka. Til allrar hamingju er sumarfrí framundan og þar sem við erum í skýjunum þá getum við haldið áfram að vera í sjöunda himni,“ segir Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor háskólans, í samtali við fréttastofu.
Margrét segir ljóst að skólahald verður ekki í þessum byggingum næsta vetur. Það sé þó ennþá ljósara að þá verði komin lausn á því hvar það verður. „Það er alltaf tækifæri í öllum áskorunum, þannig þarf maður að mæta þessu öllu saman,“ segir hún.
„Þetta mun ekki hafa nein áhrif á skólahaldið af því við erum með staðlotur þegar aðrar menntastofnanir eru í helgarfríi. Þá veit ég að við munum finna mjög góða lausn á því að hafa staðloturnar annars staðar en á Bifröst.“

Bjartsýn þrátt fyrir bagalegar fréttir
Margrét bendir á að hægt verði að halda starfsemi háskólans hnökralaust áfram þrátt fyrir mygluna. Til að mynda hafi þau farið áfallalaust í gegnum Covid-19. „Við vorum sá háskóli á Íslandi sem varð ekki fyrir neinni truflun,“ segir hún.
„Þetta eru mjög bagalegar fréttir og mikill kostnaður sem fylgir mygluframkvæmdum en hins vegar erum við mjög vel í stakk búin til þess að geta haldið áfram allri okkar starfsemi hnökralaust. Það er það jákvæða við þetta allt saman.“
Margrét er bjartsýn á að hægt verði að laga húsnæðið:
„Við erum búin að takast á að algjörlega laga fjármál háskólans á Bifröst, við erum búin að laga gæðamál háskólans á Bifröst, af hverju skyldum við ekki geta lagað þetta?“