Fótbolti

Ó­vænt úr­slit í riðli Ís­lands | Håland á skotskónum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Erling Braut Håland skoraði fyrir Noreg í kvöld.
Erling Braut Håland skoraði fyrir Noreg í kvöld. Vísir/Getty

Erling Braut Håland skoraði tvö mörk fyrir Noreg í öruggum sigri liðsins í Kýpur í undankeppni Evrópumótsins í kvöld. Þá vann Lúxemborg óvæntan sigur í riðli Íslands.

Noregur hefur ekki riðið feitum hesti í A-riðli undankeppni Evrópumótsins en liðið var aðeins með eitt stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar fyrir leikinn í kvöld.

Liðið vann hins vegar þægilegan sigur á Kýpur í Osló og skoraði Erling Håland tvö síðari mörk liðsins í seinni hálfleik eftir að Ola Solbakken hafði komið liðinu yfir í fyrri hálfleiknum. Kýpur minnkaði síðan muninn í uppbótartíma og lokatölur 3-1 fyrir Noreg.

Lúxemborg gerði sér lítið fyrir og vann 2-0 sigur á Bosníu á útivelli í kvöld. Liðin leika í riðli Íslands en Ísland tapaði einmitt fyrir Bosníu þegar liðin mættust í mars. Yvandro Borges Sanches og Daniel Sinani skoruðu mörk Lúxemborg í síðari hálfleik en liðið er nú með sjö stig í þriðja sæti J-riðils. Bosnía-Hersegóvína er í fjórða sæti með þrjú stig, jafn mörg stig og Ísland sem er í sætinu fyrir neðan.

Vesen hjá Svíum

Svíþjóð er í bölvuðum vandræðum í F-riðli eftir tap gegn Austurríki í kvöld. Austurríki er í efsta sætinu með tíu stig eftir 2-0 sigur þar sem Christoph Baumgartner, leikmaður Hoffenheim, skoraði bæði mörk liðsins. Svíar eru í þriðja sæti, fjórum stigum á eftir Belgum í þriðja sætinu.

Í þriðja leik J-riðils, riðli Íslands, vann Slóvakía nauman sigur á Licthenstein. Denis Vavro skoraði eina mark leiksins í uppbótartíma fyrri hálfleiks en Slóvakar eru tveimur stigum á eftir Portúgal, með tíu stig eftir fjóra leiki.

Romelu Lukaku var á skotskónum fyrir Belga sem unnu 3-0 útisigur á Eistlandi. Hann skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik áður en Johan Bakayoki bætti þriðja markinu við undir lokin.

Önnur úrslit í kvöld:

Moldóva - Pólland 3-2

Færeyjar - Albanía 1-3

Ungverjaland - Litháen 2-0

Búlgaría - Serbía 1-1




Fleiri fréttir

Sjá meira


×