Martínez segir mótspyrnu íslenska liðsins, þegar liðin mættust í undankeppni EM í fótbolta á Laugardalsvelli í kvöld, engan veginn hafa komið sér á óvart:
„Nei, því ég kom hingað tvisvar með Belgíu. Ég veit að fyrsta markið breytir hlutunum. Þetta er mjög erfiður völlur því þetta lið er frábært í návígum, bæði skallaeinvígum og á jörðinni, og er með ótrúlega orku. Ég held að þetta hefði getað orðið allt öðruvísi ef þetta væri ekki seinni leikurinn á 72 tímum og mér fannst Ísland alls ekki verðskulda að tapa gegn Slóvakíu.
Í kvöld höfðu þeir kannski enn meiri vilja til að ná í stigin sem þeir töldu sig eiga að fá á laugardaginn. En við komumst í góðar sóknarstöður, og náðum í 11 hornspyrnur sem ég teldi nokkuð gott. En ég var ekki hissa [á því hve erfitt var að brjóta vörn íslenska liðsins á bak aftur]. Ég var bara himinlifandi með að halda markinu hreinu því það hefði verið auðvelt að fá á sig mark úr skyndisókn eða upp úr innkasti,“ sagði Martínez á blaðamannafundi í kvöld, rétt áður en Åge Hareide mætti á sinn blaðamannafund.
„Nýt þess alltaf að horfa á Ísland“
Martínez var eins og fyrr segir hrifinn af íslenska liðinu í kvöld, og leikstíl þess undir stjórn Hareide:
„Ég nýt þess alltaf að horfa á Ísland, alveg frá því á EM 2016. Það er eitthvað sérstakt við það hvernig leikmenn spila fyrir Ísland. Núna eru kannski breytingar í gangi, ungir og spennandi leikmenn að koma inn eða jafnvel utan hóps. Framtíð Íslands er því mjög björt og þjálfarinn er afar reynslumikill, og það er ótrúlegt að sjá hvað hann hefur gert liðið vel skipulagt og samhæft á þremur dögum. Framtíðin er mjög björt,“ sagði Hareide.
Vissi að þeir þyrftu á Ronaldo að halda
Aðspurður hvort að hann teldi íslensku vörnina ekki hafa náð að halda Ronaldo vel í skefjum í kvöld, og hvort að hann hefði íhugað að taka hann af velli áður en sigurmarkið kom, svaraði Martínez:
„Stundum var hann rangstæður en hann var alltaf á réttum stað. Ef það var einhver sem átti eftir að gera útslagið þá var það hann. Ég vissi að við þyrftum á honum að halda. Hugmyndin var að koma fleiri leikmönnum í kringum hann. Okkur tókst ekki að finna lokasendinguna en stundum þarf að sýna þolinmæðina fram á lokamínútu. Orkan er ekki sú sama í íslenska liðinu á fyrstu mínútunum og á 80. mínútu. Ronaldo notaði reynsluna sína til að vera á réttum stað á réttum tíma.“