Erlent

Kallar Xi „ein­ræðis­herra“ á sama tíma og Blin­ken leitar sátta í Kína

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Biden er kominn í kosningaham.
Biden er kominn í kosningaham. AP/Susan Walsh

Joe Biden Bandaríkjaforseti kallaði Xi Jinping forseta Kína „einræðisherra“ á fjáröflunarfundi í Kalíforníu í gær og sagði hann hafa skammast sín mikið þegar Bandaríkjamenn skutu niður njósnabelginn sem flaug inn í lofthelgi þeirra á síðasta ári.

Biden bætti síðan um betur og sagði Kína í miklum efnahagserfiðleikum. 

Ummælin vekja athygli í ljósi þess að á nánast sama tíma var Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna í opinberri heimsókn í Kína ásamt föruneyti þar sem fundað var lengi um hvernig hægt væri að bæta samskipti ríkjanna tveggja sem hafa verið afar stirð undanfarin misseri. 

Blinken hitti meðal annars Xi Jinping sjálfan og þá var kínverska utanríkisráðherranum boðið í opinbera heimsókn til Washington. 

Blinken og Xi eru sagðir hafa komist að samkomulagi um að halda áfram á sáttabraut og hafa fleiri fundir embættismanna verið skipulagðir til að lægja öldurnar. Ekki er ljóst hvort orð Bidens á fjáröflunarfundinum, aðeins degi síðar, muni hafa áhrif á þau áform.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×