Fótbolti

Gagn­rýndur eftir að leik­­maður fór úr brúð­­kaups­­ferð en fékk ekkert að spila

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Boubacar Kamara hélt að hann væri að fara spila fjórða A-landsleikinn sinn en annað kom á daginn.
Boubacar Kamara hélt að hann væri að fara spila fjórða A-landsleikinn sinn en annað kom á daginn. Catherine Steenkeste/Getty Images

Boubacar Kamara, miðjumaður Aston Villa, var kallaður inn í franska landsliðið í knattspyrnu fyrir nýafstaðið landsliðsverkefni. Kamara spilaði hins vegar núll mínútur sem hlýtur að teljast svekkjandi þar sem hann var í miðri brúðkaupsferð.

Hinn 23 ára gamli Kamara hafði nýverið gifst Coralie Porrovecchio og voru þau saman að njóta hveitibrauðsdaganna. Miðjumaðurinn var hins vegar óvænt kallaður inn í landsliðshóp Frakklands vegna meiðsla Adrien Rabiot.

Kamara á að baki 3 A-landsleiki og hefur ef til vill hugsað með sér að sá fjórði væri handan við hornið þar sem Frakkland mætti Gíbraltar í fyrri leiknum og Grikklandi í þeim síðari. Það reyndist ekki raunin þar sem hann sat á bekknum frá upphafi til enda í báðum leikjum.

Frakkland gerði það sem það þurfti til að vinna leikina en ekki mikið meira en það. 3-0 útisigur á Gíbraltar og 1-0 heimasigur á Grikklandi niðurstaðan. 

Porrovecchio birti færslur á samfélagsmiðlum þar sem hún sagði að fríið hefði endað þegar eiginmaðurinn var valinn í landsliðið. Þá sagðist hún ekki vita hvort hún ætti að hlægja eða gráta.

Didier Deschamps, landsliðsþjálfari Frakklands, hefur verið gagnrýndur fyrir að skemma brúðkaupsferð Kamara. 

Kamara var að ljúka sínu fyrsta tímabili á Englandi. Hann spilaði 24 leiki í ensku úrvalsdeildinni og hjálpaði Aston Villa að enda í 7. sæti sem þýðir að liðið spilar í Sambandsdeild Evrópu á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×