Erlent

Banda­ríski blaða­maðurinn í rúss­nesku fangelsi út sumarið

Kjartan Kjartansson skrifar
Evan Gershkovich í glerbúri í réttarsal í Moskvu í morgun. Hann er fyrsti bandaríski blaðamaðurinn sem er handtekinn fyrir njósnir í Rússlandi frá lokum kalda stríðsins.
Evan Gershkovich í glerbúri í réttarsal í Moskvu í morgun. Hann er fyrsti bandaríski blaðamaðurinn sem er handtekinn fyrir njósnir í Rússlandi frá lokum kalda stríðsins. AP/Dmitrí Serebrjakov

Dómstóll í Moskvu staðfesti áframhaldandi gæsluvarðhald yfir Evan Gershkovich, bandarískum blaðamanni sem er sakaður um njósnir, fram í seinni hluta ágúst. Fréttamenn fengu ekki að vera viðstaddir þegar úrskurðurinn var kveðinn upp.

Rússneska leyniþjónustan handtók Gershkovich, fréttaritara Wall Street Journal þegar hann var að afla frétta í nágrenni Katrínarborgar í mars. Hann var sakaður um njósnir og hnepptur í gæsluvarðhald. Dómstóll úrskurðaði hann í áframhaldandi gæsluvarðhald til 30. ágúst í síðasta mánuði en hann áfrýjaði.

Fréttamönnum var vísað úr dómsalnum áður en úrskurðurinn var kveðinn upp. Þeir fylgdust með uppkvaðningunni á sjónvarpsskjám annars staðar í dómshúsinu.

Gershkovich og Wall Street Journal vísa ásökunum rússneskra stjórnvalda á bug. Bandaríkjastjórn segir blaðamanninn hafa verið handtekinn ólöglega. Rússar hafa ekki lagt fram rökstuðning eða sannanir fyrir ásökunum sínum til þessa.

AP-fréttastofan segir að Lefortovo-fangelsið í Moskvu sé alræmt fyrir slæman aðbúnað fanga. Lögmaður Gershkovich segir að bandarískum erindrekum hafi í þrígang verið meinað að hitta hann frá því í apríl. Allt að eitt og hálft ár gæti tekið að ljúka rannsókn á málinu.

Sérfræðingar telja ekki ósennilegt að stjórnvöld í Kreml hafi látið handtaka Gershkovich til þess að nota hann sem skiptimynt í fangaskiptum við Bandaríkjastjórn líkt og þeir gerðu með Brittney Griner, bandaríska körfuboltakonu, sem var handtekin fyrir minniháttar sakir í Rússlandi.


Tengdar fréttir

Halda banda­rískum blaða­manni á­fram bak við lás og slá

Rússneskur dómari úrskurðaði að Evan Gershkovich, bandarísku blaðamaður Wall Street Journal, verði áfram í varðhaldi eftir að hann var sakaður um njósnir í Rússlandi. Gershkovich og bandarísk stjórnvöld vísa ásökunum á bug.

Rússar hand­taka blaða­mann Wall Street Journal fyrir njósnir

Rússneska leyniþjónustan FSB segist hafa handtekið blaðamann bandaríska blaðsins Wall Street Journal fyrir meintar njósnir. Blaðamaðurinn gæti átt yfir höfði sér allt að tuttugu ára fangelsi verði hann fundinn sekur um njósnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×