Erlent

Sprengingar víða um Úkraínu og ráðist á her­flug­völl

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Loftárásir eru löngu orðnar daglegt brauð í Úkraínu.
Loftárásir eru löngu orðnar daglegt brauð í Úkraínu. epa/Sergey Dolzhenko

Viðvaranir voru í gildi víða í Úkraínu í morgun vegna mögulegra loftárása Rússa. Greint hefur verið frá sprengingum allt frá Lviv til Kherson en engar fregnir hafa borist af dauðsföllum.

Úkraínski herinn greindi frá því í morgun að þrettán eldflaugar sem skotið var að herflugvelli í Khmelnitskyi í vesturhluta landsins hefðu verið skotnar niður af loftvörnum Úkraínumanna. Ríkisstjórinn á svæðinu segir flaugunum hafa verið skotið af Tupolev Tu-95 sprengjuflugvélum.

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti sagði í ávarpi í gær að ástandið á hernumdum svæðum í suðurhluta Úkraínu væri hörmulegt. Þá sakaði hann Rússa um að hafa myndað hópa sem færu um og söfnuðu og feldu lík þeirra sem hefðu látist í kjölfar þess að Kakhovka-stíflan brast.

Selenskí hafði áður sagt að gagnsókn Úkraínumanna gengi ef til vill hægar en menn hefðu óskað en hann myndi ekki setja menn sína í óþarfa hættu bara til að mæta alþjóðlegum væntingum.

António Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur ásakað Rússa um að hafa drepið 136 börn í Úkraínu árið 2022. Þá hafa Sameinuðu þjóðirnar gefið út að Rússar og hópar tengdir þeim hafi sært 518 börn og framið 480 árásir á skóla og sjúkrahús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×