Sport

Ríkjandi heims­meistara vikið úr lands­liðs­hópi

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Konráð Valur Sveinsson er margfaldur Íslandsmeistari í skeiðgreinum og ríkjandi heimsmeistari í 100 metra flugskeiði.
Konráð Valur Sveinsson er margfaldur Íslandsmeistari í skeiðgreinum og ríkjandi heimsmeistari í 100 metra flugskeiði. Aðsent

Landsliðsnefnd og landsliðsþjálfari Landssambanda hestamannafélaga hafa vikið Konráði Val Sveinssyni, ríkjandi heimsmeistara, úr landsliðshópi vegna brota á aga- og siðareglum landsliðsnefndar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landssambandi hestamannafélaga (LH) sem sambandið sendi frá sér í kvöld.

Konráð Valur Sveinsson er ríkjandi heimsmeistari í hundrað metra flugskeiði á Losta frá Ekru. Á vef LH segir að Konráð stundi nám við Háskólann á Hólum og sé margfaldur Íslandsmeistari í skeiðgreinum og heimsmethafi í 250 metra skeiði.

Fleiri en eitt brot á aga- og siðareglum

Guðni Halldórsson, formaður Landssambands hestamannafélaga, sagðist ekki geta tjáð sig um það hvers eðlis brot Konráðs væru en hann hefði brotið nokkrum sinnum gegn aga- og siðareglum.

„Hann var búinn að fá tiltal út af einhverjum öðrum málum en þetta er ákvörðun landsliðsnefndar og landsliðsþjálfara sem við í stjórninni komum ekki að þannig við höfum ekki beint um þetta að segja,“ sagði Guðni um málið og vísaði á landsliðsnefnd og landsliðsþjálfara.

Ekki náðist í Sigurbjörn Bárðarson, landsliðsþjálfara, eða Kristinn Skúlason, formann landsliðsnefndar við skrif fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×