Erlent

Hver er pylsu­salinn í land­ráða­ham?

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Yevgeny Prigozhin í Rostov í Rússlandi í gær. Wagner málaliðahópurinn hefur nú beint spjótum sínum að rússneskum stjórnvöldum.
Yevgeny Prigozhin í Rostov í Rússlandi í gær. Wagner málaliðahópurinn hefur nú beint spjótum sínum að rússneskum stjórnvöldum. Vísir/AP

Yev­geny V. Prigoz­hin, leið­togi Wagner mála­liða­hópsins og við­skipta­jöfurinn sem löngum hefur verið þekktur sem „kokkur Pútíns“ berst nú leynt og ljóst gegn rúss­neska ríkinu. Er­lendir miðlar hafa keppst við að gera lit­ríkri ævi leið­toga mála­liða­hópsins skil í dag.

Prigoz­hin fæddist í Sankti Péturs­borg sem þá hét Leníngrad árið 1961. Hann fékk fangelsis­dóm tví­tugur árið 1981 fyrir þjófnað og aðra glæpi og sat inni í fangelsi í níu ár, til ársins 1990 þegar Sovét­ríkin voru við það að líða undir lok.

Eftir að honum var sleppt opnaði hann pylsu­vagn sem á endanum varð að veitinga­húsa-og verslana­keðju. Í einum af ör­fáum við­tölum sem Prigoz­hin hefur veitt hefur hann lýst því hvernig hann hafi blandað sitt eigið sinnep í eld­húsi heima hjá fjöl­skyldunni.

The Guar­dian hefur eftir ó­nefndum við­skipta­jöfri og vini Prigoz­hin að hann hafi sett mark­miðið tölu­vert hærra en að reka bara skyndi­bita­keðju. „Hann leitaði alltaf að hærra settu fólki til þess að vingast við. Og hann var góður í því,“ hefur miðillinn eftir vini hans.

Kynntist Pútín í gegnum veitinga­húsið

Prigoz­hin átti hlut í verslana­keðju og árið 1995 opnaði hann sitt frægasta veitinga­hús í Sankti Péturs­borg í sam­starfi við breska hótel­stjórann Tony Gear. Veitinga­húsið hét „Gamla toll­húsið“ þar sem að starf­semi tollsins hafði áður verið þar til húsa.

Fyrst um sinn voru stripparar meðal starfs­fólks til þess að trekkja að við­skipta­vini en maturinn þótti gríðar­lega góður og fjöldi við­skipta­vina jókst. Staðurinn var um leið markaðs­settur sem fínasti veitinga­hús Rúss­lands.

Fyrr en varði fóru merkustu stjörnur Rúss­lands að sækja staðinn heim, auk stjórn­mála­manna. Borgar­stjóri Sankti Péturs­borgar Anatoly Sobchak varð reglu­legur gestur og með honum í för var að­stoðar­borgar­stjórinn Vla­dimír Pútín.

The Guar­dian segir að hótel­stjórinn Tony Gear hafi ekki viljað láta hafa neitt eftir sér um fyrr­verandi yfir­mann sinn Prigoz­hin. Áður hefur hann sagt að Prigoz­hin hafi verið strangur yfir­maður og meðal annars notað sér­staka ljós­kastara til þess að at­huga hvort ryk væri undir borðum veitinga­staðarins.

Á fyrstu árum Vla­dimírs Pútíns sem Rúss­lands­for­seta eftir að hann tók við völdum af Borís Jelt­sín árið 2000 var for­setinn gjarn á að funda með er­lendum erind­rekum á Gamla toll­húsinu, veitinga­húsi Prigoz­hin. Á þessum árum var Prigoz­hin jafn­framt fyrir­ferðar­mikill í veitinga­þjónustu og gerði hann risa­samninga við rúss­neska ríkið í upp­hafi aldarinnar um að skaffa veitingar við hin ýmsu til­efni.

Í um­fjöllun breska blaðsins er þess getið að oft megi sjá Prigoz­hin bregða fyrir í bak­grunni á gömlum myndum af fundum Pútíns. Þar á meðal má sjá Prigoz­hin fyrir aftan Karl Breta­konung árið 2003 sem þá var í heim­sókn í Rúss­landi auk þess sem má sjá leið­toga Wagner mála­liða­hópsins í bak­grunni á gömlum myndum af fundum Pútíns og Geor­ge W. Bush, þá­verandi Banda­ríkja­for­seta.

„Pútín sá að ég var ekki of góður til þess að færa þeim réttina sjálfur,“ hefur Prigoz­hin áður sagt um upp­haf sam­bands síns við Pútín. Prigoz­hin hélt á­fram að þéna gríðar­legar upp­hæðir vegna veitinga­reksturs síns og árið 2012 gerði hann til að mynda risa­samninga við rúss­nesk yfir­völd um að sjá um veitingar í rúss­neskum skólum.

Eins og hundur í leit að pening

Árið 2014 opnuðust nýjar dyr fyrir Prigoz­hin þegar Rússar inn­limuðu Krím­skaga og réðust inn í austur­hluta Úkraínu. Pútín þver­tók fyrir það að um rúss­neska her­menn væri að ræða, þrátt fyrir að sönnunar­gögn sýndu fram á annað.

Í um­fjöllun Guar­dian kemur fram að rúss­nesk yfir­völd hafi þá leitað leiða til þess að fela slóð sína. Þar hafi mála­liða­hópar líkt og mála­liða­hópurinn Wagner undir stjórn Prigoz­hin komið inn. Margt er á huldu varðandi upp­haf Wagner hópsins en talið er að hann hafi verið stofnaður við þessa at­burði.

„Ég held að Prigoz­hin hafi lagt þetta til við Pútín og hann hafi sam­þykkt það að svona gæti þetta virkað,“ hefur breski miðillinn eftir fyrr­verandi starfs­manni rúss­neska varnar­mála­ráðu­neytisins. Hann segir Wagner mála­liða­hópinn þannig hafa verið hugar­fóstur Prigoz­hin allt frá upp­hafi.

Prigozhin og Pútín árið 2010, á meðan allt lék í lyndi. Vísir/AP

Prigoz­hin var í kjöl­farið af­hent tölu­verður hluti af landi í Molkino í suður­hluta Rúss­lands. Þar hófu fyrir­tæki tengd honum að koma upp búðum þar sem her­menn á vegum mála­liða­hópsins voru þjálfaðir en opin­ber skýring stjórn­valda á búðunum voru að þar væri um að ræða sumar­búðir.

„Hann er eins og hundur sem er alltaf í leit að peningum,“ hefur breski miðillinn eftir starfs­manni rúss­neska ráðu­neytisins. Þar kemur fram að skjótur frami Prigoz­hin á sviði varnar­mála ríkisins hafi fljót­lega farið að fara í taugarnar á per­sónum í rúss­neska varnar­mála­ráðu­neytinu.

Sýr­land skilaði sínu

Á­kvörðun Pútíns um inn­grip Rússa í borgara­styrj­öldinni í Sýr­landi árið 2015 hafði gríðar­leg á­hrif á feril Prigoz­hin og Wagner mála­liða­hópsins. Prigoz­hin græddi vel á sölu veitinga og annarra vista auk þess sem mála­liðar hans í Wagner hópnum fengu bar­daga­reynslu.

Mála­liða­hópurinn hefur verið sakaður um að hafa framið ótal stríðs­glæpi í landinu. Opin­ber­lega hafa rúss­nesk yfir­völd aldrei viður­kennt veru hópsins í landinu en í frétt Guar­dian kemur fram að talið sé að hópurinn hafi orðið þar fyrir miklu mann­falli.

Þá hefur Prigoz­hin ekki einungis fjár­magnað mála­liða í hinum raun­veru­lega hópi, heldur einnig hópa sem hafa gert á­rásir á hin ýmsu tölvu­kerfi um allan heim. Þannig eru hópar á hans vegum auk fyrir­tækja talin hafa staðið að baki að­gerðum Rússa í að­draganda banda­rísku for­seta­kosninganna árið 2016 þar sem þau beittu sér fyrir því að fá Donald Trump Banda­ríkja­for­seta kosinn.

Gríðar­leg leynd allt þar til inn­rásin hófst

Gríðar­leg leynd ríkti um margra ára skeið um að­komu Prigoz­hin að Wagner mála­liða­hópnum og annarra að­gerða í Sýr­landi, Úkraínu og í net­heimum. Árið 2018 tók Wagner mála­liða­hópurinn að sér frekari verk­efni í tíu ríkjum í Afríku.

Prigoz­hin þver­tók fyrir að vera tengdur hópnum og beitti of­beldi og ógnunum til þess að koma í veg fyrir að fréttir væru fluttar af starf­semi hópsins heima fyrir. Þannig voru þrír rúss­neskir blaða­menn til að mynda af­lífaðir í dular­fullri árás sem virtist vel skipu­lögð þar sem þeir gerðu sér för til Mið-Afríku­lýð­veldisins árið 2018 til að rann­saka starf­semi mála­liðanna.

Marat Gabidullin, einn yfir­manna á vegum Wagner hópsins, eyddi þremur mánuðum í höfuð­stöðvum hópsins í Sankti Péturs­borg. Guar­dian hefur eftir honum að Prigoz­hin hafi ó­spart nýtt sér ótta við stjórn hópsins. Hann hafi sýnt her­mönnum hópsins vissa sam­úð en oft sýnt skrif­stofu­fólki lítils­virðingu.

„Hann var gríðar­lega strangur. Prigoz­hin fór oft yfir strikið gagn­vart starfs­fólki sínu. Hann var mjög dóna­legur og bölvaði fólki gjarnan og gerði lítið úr því á al­manna­færi.“

Árið 2018 var Prigoz­hin enn ekki með neina opin­bera stöðu á sviði varnar­mála í Rúss­landi. Þrátt fyrir þetta sat hann reglu­lega fundi með hátt settum aðilum, meðal annars Vla­dimír Pútín Rúss­lands­for­seta. Sá þver­tók fyrir að Prigoz­hin væri með mikil völd á bak­við tjöldin.

„Hann rekur veitinga­þjónustu, það er starfið hans. Hann er veitinga­húsa­rekandi í Sankti Péturs­borg,“ sagði Pútín um Prigoz­hin árið 2018 og líkti full­yrðingum um Prigoz­hin við full­yrðingar um Geor­ge Sor­os, ung­verska auð­jöfurinn sem gjarnan hefur verið tengdur við sam­særis­kenningar um meint ítök í stjórn­málum á vestur­löndum.

Leyndinni af­létt af „verndara lítil­magnans“

Eftir alls­herjarinn­rás Rússa í Úkraínu í febrúar í fyrra var leyndar­hulunni svipt af tengslum Prigoz­hin við Wagner mála­liða­hópinn. Lýsti hann því sjálfur yfir í septem­ber í fyrra að hann hefði stofnað hópinn árið 2014.

Í að­draganda þeirrar játningar hafði mynd­band af Prigoz­hin, þar sem mátti sjá hann á­varpa risa­stóran hóp af föngum, farið eins og eldur í sinu um net­heima. Þar hét Prigoz­hin föngunum því að myndu þeir lifa af fyrstu sex mánuðina í bar­dögum í Úkraínu myndu þeir losna undan fangelsis­dómum sínum og fá gríðar háar upp­hæðir að launum.

Segir í frétt Guar­dian að talið sé að Prigoz­hin hafi fengið allt að 38 þúsund rúss­neska fanga til þess að taka upp vopn fyrir mála­liða­hópinn. Hópurinn hefur barist fyrir hönd Rúss­lands í Úkraínu, meðal annars í Bak­hmut borg.

Undan­farnar vikur hefur hann gagn­rýnt rúss­nesk stjórn­völd harka­lega og sagt þau ekki styðja við her­menn sína en nú virðist allt vera farið í skrúfuna eftir meintar loft­á­rásir rúss­neskra yfir­valda gegn Wagner hópnum.

Miðillinn hefur eftir stjórn­mála­fræðingnum Ivan Kra­stev að Prigoz­hin hafi orðið and­lit þeirra sem eru and­vígir rúss­neskri stjórn­málaelítu og Vla­dimír Pútín. Margir sem hann þekki hafi um margra ára skeið líst honum sem verndara lítil­magnans.

Fé­lagi Prigoz­hin frá tíunda ára­tugnum, rúss­neskur auð­jöfur, segir að hann muni ekki láta staðar numið í þeirri valda­ráns­til­raun sem hann hafi nú hrint af stað í Rúss­landi. „Hann veit að það hata hann margir innan stjórn­kerfisins og veit að ef hann hættir við þá gæti það þýtt að það verði hans enda­lok. Hann á engra kosta völ, hann mun ekki hætta við.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×