Innlent

Munu krefjast gæslu­varð­halds vegna al­var­legrar líkams­á­rásar

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Árásin er nú til rannsóknar lögreglu.
Árásin er nú til rannsóknar lögreglu. Vísir/Vilhelm

Karlmaður á þrítugsaldri er í haldi lögreglunnar höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á alvarlegri líkamsárás í miðborginni í nótt og verður krafist gæsluvarðhalds yfir honum. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni. Þar kemur fram að lögreglu hafi verið tilkynnt um málið um fjögur leytið í nótt og hélt hún þegar á vettvang, en sá sem fyrir árásinni varð var fluttur á slysadeild.

Ei­rík­ur Val­berg, lög­reglu­full­trúi í miðlægri rann­sókn­ar­deild lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu, segir í samtali við Vísi að hann hafi ekki við fleiru að bæta en kemur fram í tilkynningu lögreglu. Árásarmaðurinn er Íslendingur.

Þá er brotaþoli einnig karlmaður á þrítugsaldri, en ástand hans er mjög alvarlegt. Meintur árásarmaður var handtekinn skammt frá vettvangi, en krafist verður gæsluvarðhalds yfir honum síðar í dag.

Rannsókn málsins er á frumstigi og segir lögregla ekki hægt veita frekar upplýsingar að svo stöddu. Lögregla muni gefa frá sér frekari upplýsingar þegar þær liggja fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×