Billy Raymond Counterman var sakfelldur fyrir að beita Coles Whalen, tónlistarkonu og lagahöfund, umsáturseinelti og að valda henni tilfinningalegum þjáningum árið 2017. Hann sendi Whalen þúsundir óumbeðinna skilaboða á samfélagsmiðlum á tveggja ára tímabili og var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir.
Counterman hafði áður sent konum ofbeldishótanir og var undir eftirliti vegna dóms sem hann hlaut í slíku máli þegar hann sendi Whalen skilaboðin. Hún hefur lýst því að hún hafi talið skilaboðin ógnandi og að þau hafi breytt lífi hennar. Hún hafi lamast af ótta og kvíða, aflýst tónleikum, sótt um byssuleyfi og sofið með kveikt ljós vegna stanslauss áreitis Counterman.
Á meðal skilaboðanna sem Counterman sendi Whalen var: „Þú ert ekki góð fyrir mannleg samskipti. Deyðu. Þarf ekki á þér að halda.“ Í öðrum skilaboðum notaði hann fúkyrði og gaf í skyn að hann fylgdist með ferðum hennar. Counterman heldur því fram að hann þjáist af geðsjúkdómi og sé haldinn ranghugmyndum.
Ætlaði sér ekki að ógna Whalen
Áfrýjun Counterman á þeirri forsendu að skilaboðin væru varin af tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrár var hafnað þar sem ríkisdómstóll taldi þau fela í sér raunverulega hótun. Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur talið að beinar hótanir falli ekki undir tjáningarfrelsisákvæðið.
Fyrir Hæstarétti héldu lögmenn Counterman því fram að saksóknarar í Colorado hefðu þurft að sýna fram á að hann hafi ætlað sér að ógna Whalen áður en þeir ákváðu að skilaboð hans nytu ekki verndar stjórnarskrár, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Counterman byggir á því að hann hafi aldrei ætlað sér að ógna Whalen og því hafi skilaboðin rúmast innan tjáningarfrelsis hans.

Afgerandi meirihluti hæstaréttardómara tók undir rök Counterman. Saksóknarar þyrftu að sýna fram á að sakborningur hefði „hunsað verulega hættu á að litið yrði á skilaboð sem hótun um ofbeldi“ til þess að forðast kælingaráhrif á tjáningu sem fæli ekki í sér hótanir, að því er kemur fram í frétt Washington Post.
Fjórir íhaldsmenn af sex og allir þrír frjálslyndu dómararnir stóðu að meirihlutaáliti í málinu.
Lokaði ítrekað á hann á Facebook
Whalen svaraði aldrei skilaboð Counterman sem hófu að berast árið 2014. Þegar hún lokaði á hann á samfélagsmiðlinum Facebook stofnaði hann nýja aðganga og sendi henni skilaboð á fleiri miðlum. Alls lokaði Whalen fjórum sinnum á Counterman á Facebook.
Það var ekki fyrr en ættingi Whalen hafði samband við lögreglu sem Counterman var ákærður fyrir umsáturseinelti árið 2016. Það var skilgreind í lögum í Colorado sem skilaboð sem gætu valdið venjulegri manneskju alvarlegu tilfinningalegu uppnámi.