Fram kemur í tilkynningu frá Coca-Cola Europacific Partners á Íslandi, sem framleiðir Topp, að nafnabreytingin sé liður í stefnu The Coca-Cola Company um að leggja áherslu á „færri en sterkari vörumerki á alþjóðavísu.“
Anna Regína Björnsdóttir, forstjóri CCEP á Íslandi, útskýrir að sem alþjóðlegt fyrirtæki vilji The Coca-Cola Company styðja betur við sín helstu vörumerki. Bonaqua sé eitt af stærstu vörumerkjum fyrirtækisins á heimsvísu og fæst á þrjátíu markaðssvæðum.
„Breytingin er mjög spennandi því við munum fá aðgang að mun öflugri vöruþróun og vönduðu markaðsefni sem mun koma neytendum okkar til góða,“ er haft eftir Önnu Regínu í tilkynningunni.

„Gamla góða bragðið mun þó halda sér sem og þær bragðtegundir sem í boði eru, en íslenskir neytendur mega því búast við fleiri nýjungum, líkt og nágrannaþjóðir okkar eiga að venjast, sem er frábært fyrir langtímavöxt vörumerkisins.“
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem íslenskum vörumerkjum er slaufað á kostnað alþjóðlegra vörumerkja hjá fyrirtækinu. Árið 2019 færðist ávaxtasafavörumerkið Trópí alfarið yfir í hið alþjóðlega Minute Maid.