Fótbolti

Raunhæf varaleið fyrir Ísland á næsta HM

Sindri Sverrisson skrifar
Ísland hefur einu sinni komist á HM og gerði þar jafntefli við Argentínu í fyrsta leik.
Ísland hefur einu sinni komist á HM og gerði þar jafntefli við Argentínu í fyrsta leik. Getty

Nú er ljóst hvaða leið íslenska karlalandsliðið í fótbolta þarf að fara til að komast inn á heimsmeistaramótið sem fram fer í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada eftir þrjú ár.

Ísland var með á HM í fyrsta og eina sinn sumarið 2018 í Rússlandi en var langt frá því að komast inn á HM í Katar sem fram fór í desember.

UEFA, knattspyrnusamband Evrópu, hefur nú staðfest hvernig fyrirkomulagið verður í undankeppninni fyrir næsta HM, og baráttan um farseðil til Ameríku hefst eftir lokakeppni EM næsta sumar.

Tvær leiðir eru í boði fyrir Ísland inn á HM; í gegnum hina hefðbundnu undankeppni eða þá í gegnum Þjóðadeild auk umspils.

Íslenska landsliðið er nú í miðri undankeppni fyrir EM. Leiðin á HM hefst ekki fyrr en að EM len það fer fram næsta sumar.VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Undankeppni HM í Evrópu verður öll spiluð á árinu 2025. Spilað verður í 12 riðlum og komast sigurvegarar riðlanna beint á HM.

Liðin tólf sem enda í 2. sæti fara í umspil, ásamt fjórum bestu liðunum sem vinna sinn riðil í Þjóðadeildinni 2024-25 en enda ekki í 1. eða 2. sæti síns riðils í undankeppninni.

Þyrftu að vinna sinn riðil í Þjóðadeild

Þjóðadeildin gæti þannig verið raunhæf varaleið fyrir Ísland til að komast á HM, eða alla vega í umspilið, ef Ísland nær ekki öðru af tveimur efstu sætunum í sínum riðli í undankeppninni. Ísland þyrfti vissulega að vinna sinn riðil í Þjóðadeildinni, en það er að minnsta kosti mun auðveldara í B-deild en A-deild.

Væntanlega verður dregið í riðla fyrir Þjóðadeildina í desember. Ísland leikur áfram í B-deild og er í 2. styrkleikaflokki, en í efsta flokki eru England, Tékkland, Austurríki og Wales. Það eru því sterkustu andstæðingarnir sem gætu staðið í vegi fyrir Íslandi.

Ef Ísland verður heppið með riðil og nær að vinna hann, haustið 2024, er nánast öruggt að það dugi liðinu til að komast í HM-umspilið, þar sem að sigurvegarar riðlanna í A-deild Þjóðadeildarinnar verða væntanlega í 1. eða 2. sæti síns riðils í undankeppninni, og því þegar öruggir um sæti á HM eða í umspili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×