Erlent

Ekki á­kærður vegna harm­leiksins á tón­leikunum

Árni Sæberg skrifar
Travis Scott á sviði á Astroworld, skömmu áður en ósköpin dundu yfir.
Travis Scott á sviði á Astroworld, skömmu áður en ósköpin dundu yfir. Amy Harris/AP

Rapparinn Travis Scott verður ekki ákærður fyrir aðkomu sína að því þegar tíu ungir tónleikagestir létust eftir troðning á tónlistarhátíðinni Astroworld, sem Scott hélt árið 2021.

Kviðdómur í Harris-sýslu í Texas ákvað í dag að ákæra yrði ekki gefin út á hendur rapparanum. Þetta staðfestir Kent Schaffer, lögmaður Scotts, í samtali við AP-fréttaveituna.

„Hann hvatti engan til að gera nokkuð sem gæti valdið öðrum skaða. Þessi ákvörðun er mikill léttir,“ er haft eftir honum.

Travis Scott, sem jafnframt var einn af aðstandendum hátíðarinnar, var á sviðinu þegar áhorfendur freistuðu þess að komast sem næst með þeim afleiðingum að fjöldi tónleikagesta varð undir. Tíu létust, þar á meðal níu ára drengur, og hundruð særðust.

Haft er eftir Schaffer að hann hafi mikla samúð með fórnarlömbum og aðstandendum þeirra en að Scott sé ekki ábyrgur fyrir skaða og missi þeirra. Ákæra á hendur honum myndi ekki lina þjáningar þeirra.

Ríflega fimm hundruð manns hafa stefnt ýmist Live Nation, skipuleggjendum hátíðarinnar, eða Scott. Um sumar þeirra hefur verið komist að dómsátt.


Tengdar fréttir

Tra­vis Scott sparkað af Coachella

Tónlistarmaðurinn Travis Scott mun ekki koma fram á Coachella en hann átti að troða upp á aðaltónleikum hátíðarinnar sem er ein sú stærsta í heiminum. Sextíu þúsund manns hafa skrifað undir áskorun til skipuleggjenda hátíðarinnar um að sparka Scott.

Slökkviliðsstjórinn segir Travis hafa átt að stöðva tónleikana

Slökkviliðsstjórinn í Houston í Texas segir að rapparinn Travis Scott hefði átt að stöðva tónleikana sína á Astroworld tónlistarhátíðinni á föstudag þegar hann varð var við að eitthvað væri að á tónleikunum. Átta fórust á þeim, á aldrinum fjórtán til 27 ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×