Innlent

Fjórir eða fimm veittust að ung­menni og eyði­lögðu hjól þess

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla sinnti ýmsum fjölbreyttum verkefnum í gærkvöldi og nótt.
Lögregla sinnti ýmsum fjölbreyttum verkefnum í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út í gær eftir að tilkynnt var um rán þar sem fjórir til fimm aðilar voru sagðir hafa ráðist á ungan einstakling. Einn af þeim ógnaði viðkomandi með hníf.

Höfðu árásarmennirnir reiðhjól af ungmenninu og eyðilögðu það áður en þeir yfirgáfu vettvang. Þeir voru farnir þegar lögregla mætti á staðinn en málið er í rannsókn.

Lögreglu barst einnig tilkynning um slagsmál sem voru sögð í uppsiglingu í verslun í póstnúmerinu 108 en málið reyndist snúast um ósáttan viðskiptavin sem fékk tiltal frá lögreglu.

Í póstnúmerinu 103 var ölvuðum einstakling vísað út af veitingastað þar sem hann hafði verið til vandræða.

Annars staðar fékk leigubílstjóri aðstoð þegar viðskiptavinur neitaði að greiða fargjald og þá var einstakling vísað heim sem sagður var hafa ónáðað fólk í miðbænum.

Í umdæminu Kópavogur/Breiðholt var tilkynnt um þjófnað í verslun og aðstoðar lögreglu óskað vegna hávaða í gleðskap. Þá var tilkynnt um hóp ungmenn sem voru sögð stunda skemmdarverk en þau reyndust aðeins að leika sér og voru samvinnuþýð og góð, að því er segir í skýrslu lögreglu.

Í Grafarvogi/Mosfellsbæ/Árbæ var tilkynnt um yfirstandandi líkamsárás en ástandið hafði róast þegar lögregla mætti á svæðið. Einn var engu að síður kærður fyrir líkamsárás.

Nokkrir voru handteknir undir áhrifum í umferðinni í gærkvöldi og nótt.

Þá barst lögreglu tilkynning um slys þar sem einstaklingur féll af hestbaki og hlaut opið beinbrot. Var viðkomandi fluttur með sjúkrabifreið á Landspítala.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×