Heimir Guðjónsson, þjálfari FH-liðsins, var þarna að stýra liði í 285. sinn í efstu deild á Íslandi en hefur aldrei fengið svo stóran skell áður.
Þetta er í fyrsta sinn sem lið hans tapar með fimm marka mun í efstu deild. Heimir hefur aftur á móti sjálfur unnið sjö leiki með fimm mörkum eða meira.
Stærsta tap Heimis fyrir leikinn í kvöld kom reyndar á sama stað og það var fjögurra marka tap fyrir næstum því tólf árum.
FH tapaði 4-0 á móti Stjörnunni 29. ágúst 2011. Garðar Jóhannsson skoraði tvö mörk í þeim leik og hin mörkin skoruðu þeir Bjarki Páll Eysteinsson og Þorvaldur Árnason.
Stjörnumaðurinn Daníel Laxdal spilaði báða þessa leiki en var sá eini sem tók þátt í báðum leikunum.
Í gær skoraði Emil Atlason tvö mörk fyrir Stjörnuna en hin mörkin skoruðu þeir Eggert Aron Guðmundsson, Guðmundur Kristjánsson og Ísak Andri Sigurgeirsson.
Ísak Andri reyndist FH-ingum sérstaklega erfiður, lagði upp tvö fyrstu mörkin fyrir Emil, átti stóran þátt í marki Eggerts og fiskaði aukaspyrnuna sem gaf mark Guðmundar.
Fram að leiknum í gær hafði Heimir aðeins einu sinni tapað með fjögurra marka mun en sjö sinnum með þriggja marka mun. Hér fyrir neðan má sjá stærstu töp þjálfarans.
- Stærstu töp liða Heimis Guðjónssonar í efstu deild:
- 0-5 með FH á móti Stjörnunni 29. júní 2023
- 0-4 með FH á móti Stjörnunni 29. ágúst 2011
- 1-4 með FH á móti Breiðabliki 16. júní 2008
- 1-4 með FH á móti Fram 17. september 2008
- 1-4 með Val á móti ÍA 3. júlí 2020
- 1-4 með Val á móti KA 19. september 2021
- 0-3 með FH á móti Grindavík 23. ágúst 2009
- 0-3 með Val á móti Breiðabliki 11. september 2021
- 0-3 með Val á móti Keflavík 11. júlí 2022