Erlent

Dæmdu vefsíðuhönnuði sem vildi ekki vinna fyrir hinsegin hjón í hag

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Grafíski hönnuðurinn Lorie Smith hafði betur í hæstarétti Bandaríkjanna í dag. Hún hafði neitað að vinna fyrir hinsegin hjón á grundvelli trúar sinnar.
Grafíski hönnuðurinn Lorie Smith hafði betur í hæstarétti Bandaríkjanna í dag. Hún hafði neitað að vinna fyrir hinsegin hjón á grundvelli trúar sinnar. AP/Andrew Hamik

Hæstiréttur Bandaríkjanna komst í dag að þeirri niðurstöðu að kristinn grafískur hönnuður sem vill hanna brúðkaupsvefsíður mætti neita því að vinna fyrir hinsegin hjón. Dómurinn er talinn mikið bakslag fyrir hinsegin réttindi og hann gefi fyrirtækjum leyfi til að mismuna fólki á grundvelli trúarbragða.

Dómurinn féll í máli grafíska hönnuðarins Lorie Smith með meirihluta sex dómara gegn þremur þrátt fyrir að í Kólóradó-ríki séu lög sem banna mismunun á grundvelli kynhneigðar, kynþáttar eða kyns.

Smith hélt því fram að lögin brytu á stjórnarskrárvörðu málfrelsi hennar. Gagnaðilar vöruðu við því að sigur hennar gæti leitt til þess að fjöldi fyrirtækja gæti nú mismunað fólki og neitað að þjónusta hörundsdökka, gyðinga, múslima og aðra eftir hentisemi.

Smith sagði fyrir niðurstöðuna að ef dómurinn félli henni ekki í hag þá myndu listamenn þurfa að vinna að verkum og verkefnum sem stríddu gegn þeirra eigin trú. 

Hæstaréttardómarinn Sonia Sotomayor skilaði minnihlutaáliti þar sem hún sagði „Í dag hefur hæstiréttur, í fyrsta skiptið í sinni sögu, gefið fyrirtæki, sem er opið almenningi, stjórnskipulegan rétt til að neita því að þjónusta meðlimi verndaðs hóps.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×