„Viljayfirlýsing um kyndilborun“ segir í frétt Stjórnarráðsins um „hraðvirkari og hagkvæmari tækni fyrir jarðgöng og lagnagöng“ með mynd af ráðherrunum Sigurði Inga Jóhannssyni og Guðlaugi Þór Þórðarsyni ásamt Björgmundi Erni Guðmundssyni, fulltrúa bandaríska félagsins EarthGrid, að skrifa undir yfirlýsingu í Vestmannaeyjum í síðustu viku. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2.

Aðferðin felst í að nota ofurheitan plasma-ljósboga til að kurla upp bergið en tæknin hefur í áratugi verið nýtt í málmiðnaði þegar hefðbundin logsuða dugar ekki.
Vísir sagði frá því í fyrra að aðferðin gæti valdið byltingu í jarðgangagerð og að ekki færri en þrír ótengdir aðilar, austan hafs og vestan, væru að þróa hana. Earthgrid virðist komið einna lengst og er að byrja að nýta kyndilborun fyrir lagnagöng í gegnum hart berg.
Og núna er verið að þróa stærri kyndilbor til að bora stærri göng. Á heimasíðu Earthgrid er sýnd mynd af frumgerð beltadreka sem myndi með fjölda logandi ljósbogakyndla mölva sér leið í gegnum bergið.

Kyndilborinn er knúinn áfram af raforku og þarf raunar mjög mikla orku til að ná fram ofurhita.
Fullyrt er að mikið hagræði felist í þessari aðferð, afköstin verði mun meiri en með hefðbundnum borunum og kostnaður mun lægri. Í frétt Stjórnarráðsins segir að búist sé við því að jarðgöng fyrir umferð ökutækja verði boruð á næstu árum.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: