Skoðun

Inn­viðir eru ekki að springa vegna flótta­fólks

Marín Þórsdóttir skrifar

Síðustu misseri hefur ítrekað komið fram í fjölmiðlum að innviðir íslensks samfélags séu sprungnir og því sé erfitt að þjónusta fólk sem fengið hefur alþjóðlega vernd hér á landi. Ísland hefur aldrei veitt jafn mörgum vernd og árið 2022 og má það einkum rekja til ákvörðunar stjórnvalda um að veita fólki frá Venesúela og Úkraínu vernd. Verndarveitingar til fólks af öðrum þjóðernum hafa nokkurn veginn staðið í stað síðustu ár og því mikilvægt að hafa í huga þegar þessi mál eru rædd.

Umræðan síðustu vikur ýtir undir hræðslu og tortryggni um að íslenskt samfélag ráði ekki við að taka á móti þeim einstaklingum sem hafa þurft að flýja heimaríki sín og leita hér verndar. Horft er til þess kostnaðar sem hlýst af því að veita fólki lögboðna þjónustu fyrst eftir að það kemur til landsins, en ekki til þess ávinnings sem samfélagið hlýtur ef vel er staðið að móttöku flóttafólks og inngildingu þeirra í samfélaginu.

Vissulega er kostnaður sem fylgir því að vanda vel til verka. En þegar vel tekst til er ávinningurinn mikill og allir græða, flóttafólk sem og íslenskt samfélag. Innviðir landsins og þolmörk þeirra eru mannanna verk. Ákvörðun um að fjárfesta í móttöku fólks á flótta og styrkja þannig innviði samfélagsins er því langtímafjárfesting sem lítið og vel efnað land hefur alþjóðlega skyldu til taka og þarf að sinna vel.

Það er líka mikilvægt að gera sér grein fyrir því að þau sem fengu vernd á síðasta ári voru 3.455 talsins, en á sama tíma fluttu hingað til lands alls u.þ.b. 17 þúsund erlendir ríkisborgarar og 1,7 milljón ferðamenn heimsóttu landið. Það er því einföldun á málinu að halda því fram að minnsti hópurinn sé sá hópur sem ber alfarið ábyrgð á því að innviði landsins hafi sprungið.

Höfundur er deildarstjóri höfuðborgardeildar Rauða krossins á Íslandi.




Skoðun

Sjá meira


×