Viðskipti innlent

Dæmdur í fangelsi og 153 milljóna sektar vegna skatta­brots

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn játaði þau brot sem rakin voru í ákæru.
Maðurinn játaði þau brot sem rakin voru í ákæru. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í fjórtán mánaða fangelsi og greiðslu 153 milljóna króna sektar fyrir meiri háttar skattabrot.

Maðurinn, sem var framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í einkahlutafélagi, var ákærður fyrir brot á skattalögum með því að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda á tímabilinu 2020 til 2022, samtals að fjárhæð 83,5 milljónir króna.

Í dómi kemur fram að maðurinn hafi skýlaust játað brot sín. Dómari mat það sem svo að sakaferill mannsins hefði ekki áhrif í þessu máli og var hæfileg refsing metin fjórtán mánaða fangelsi. Þó skuli fresta fullnustu refsingarinnar og hún niður falla, haldi maðurinn almenn skilorð í tvö ár.

Við ákvörðun sektar var litið til innborgunar sem lækki fésektarlágmarkið vegna eins skattatímabilsins, og var heildarsektin því ákvörðuð tæpar 153 milljónir króna. Beri manninum að greiða sektina innan fjögurra vikna eða sæta fangelsi í 360 daga.

Þá var maðurinn jafnframt dæmdur til að greiða málsvarnarþóknun skipaðs verjanda, um 450 þúsund krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×