Fótbolti

Karlalandsliðið á Stöð 2 Sport næstu þrjú árin

Sindri Sverrisson skrifar
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta spilar á Stöð 2 Sport næstu þrjú árin.
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta spilar á Stöð 2 Sport næstu þrjú árin. vísir/Diego

Allir leikir íslenska karlalandsliðsins í fótbolta verða sýndir á Stöð 2 Sport næstu þrjú árin. Þetta er meðal atriða í samstarfssamningi Sýnar og Viaplay sem tilkynnt var um í dag.

Leikir landsliðsins hafa verið sýndir á Viaplay síðustu misseri en frá og með næsta leik þess verða útsendingar á Stöð 2 Sport.

Næsti leikur landsliðsins er gegn Lúxemborg ytra 8. september og þremur dögum síðar tekur Ísland á móti Bosníu á Laugardalsvelli. Eftir töpin gegn Slóvakíu og Portúgal í síðasta mánuði þarf íslenska liðið sárlega á góðum úrslitum að halda í september í von um annað af tveimur efstu sætunum í riðli Íslands í undankeppni EM.

Leikirnir verða sýndir í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og einnig í streymi hjá Viaplay. 

Samstarfssamningurinn felur í sér að Stöð 2 Sport mun taka yfir framleiðslu á allri innlendri dagskrárgerð tengdri því íþróttaefni sem Viaplay hefur upp á að bjóða á Íslandi. Þar á meðal er Meistaradeild Evrópu, Formúla 1, Championship - deildin og Carabao-bikarinn í Englandi, þýski fótboltinn og handboltinn, landsleikir í undankeppni EM karla, stórmót í pílukasti og meira til.

Vísir er í eigu Sýnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×