Viðskipti innlent

Heildar­tekjur ein­stak­linga 8,4 milljónir að meðal­tali á síðasta ári

Atli Ísleifsson skrifar
Miðgildi heildartekna var hæst í Garðabæ, eða tæpar 7,9 milljónir og rúmar 7,8 milljónir króna á Seltjarnanesi.
Miðgildi heildartekna var hæst í Garðabæ, eða tæpar 7,9 milljónir og rúmar 7,8 milljónir króna á Seltjarnanesi. Vísir/Vilhelm

Heildartekjur einstaklinga á Íslandi voru tæpar 8,4 milljónir króna að meðaltali árið 2022, eða rétt tæpar 700 þúsund krónur á mánuði.

Um er að ræða níu prósenta hækkun frá fyrra ári, en sé horft til verðlagsleiðréttingar var raunhækkunin um 0,6 prósent.

Þetta kemur fram í nýjum gögnum frá Hagstofunni. Þar segir að miðgildi heildartekna hafi verið um 6,6 milljónir króna á ári, sem sýni að helmingur einstaklinga hafi verið með heildartekjur undir 554 þúsund krónum á mánuði. Hækkun miðgildis heildartekna var 10,7 prósent, en með tilliti til raunhækkunar var hækkunin 2,2 prósent.

Ennfremur segir að meðaltal atvinnutekna á síðasta ári hafi verið um 5,8 milljónir, meðaltal fjármagnstekna um 0,8 milljónir króna og meðatal annarra tekna um 1,7 milljónir. Heildartekjur eru samtala atvinnutekna, fjármagnstekna og annarra tekna.

Hæsta miðgildi tekna í Garðabæ

Miðgildi heildartekna var hæst í Garðabæ, eða tæpar 7,9 milljónir og rúmar 7,8 milljónir króna á Seltjarnanesi, tæpar 7,4 milljónir króna í Fjarðarbyggð, 7,3 milljónir í Kópavogi og í Reykjavík rúmlega 6,9 milljónir króna. Fjórtán sveitarfélög höfðu miðgildi heildartekna undir 6 milljónum króna og eitt var undir 5 milljónum króna.

Sé horft til meðaltals heildartekna þá er það hærra en miðgildi, tæpar 10,6 milljónir í Garðabæ og á Seltjarnanesi. Í Reykjavík er meðaltal heildartekna tæpar 8,3 milljónir króna og 8,5 milljónir króna í Hafnarfirði og Mosfellsbæ, meðan áðurnefnt landsmeðaltal er 8,4 milljónir króna. Þrettán sveitarfélög hafa meðal heildartekjur undir 7 milljónum króna og eitt þeirra undir 6 milljónum króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×