Hrefna var gestur í Bítinu í morgun. Þar játar hún að Creditinfo hafi á sínum tíma ekki athugað mál lánaskilmála nógu vel og veitt viðskiptavininum eCommerce of mikið traust í tengslum við skráningar á vanskilaskrá.
„Það sem stendur á okkur er að við höfum sett of mikið traust á aðilann sem sendir inn kröfuna um að hans lánaskilmálar væru fullnægjandi,“ segir Hrefna. „Síðan er þessi sundurgreining á hvað má skrá ekki nægilega skýr í innsendingu.“
Verðbólga og vextir auki vanskil einstaklinga
Greint var frá því í gær að Persónuvernd hefur sektað Creditinfo um tæpar 38 milljónir vegna skráninga lántakenda smálána á vanskilaskrá. Sektin nemur 2,5 prósentum af 1,5 milljarðs ársveltu Creditinfo. Neytendasamtökin segja sektina þá langhæstu sem Persónuvernd hefur gert fyrirtæki að greiða. Sektin varðaði skráningu upplýsinga frá eCommerce 2020 ApS um vanskil á smálánum hjá Creditinfo.
„Við höfum lært mjög mikið af þessu máli og breytt okkar verklagi. Þessum tiltekna viðskiptavini var sagt upp, sem sagt ekki tekið á móti skráningu frá honum og innheimtuaðilanum,“ segir Hrefna um eCommerce.
Hún segir Creditinfo hafa afskráð þær kröfur sem ekki voru réttmætar og aukið eftirlit á þeim sem fyrirtækið sér skráningu á vanskilaskrá fyrir.
Þá segir Hrefna að átján þúsund manns séu skráðir á vanskilaskrá í dag á Íslandi. Ekki sé ólíklegt að sú tala eigi eftir að hækka. „Ef þú spáir í umhverfið, vextir orðnir verulega háir, verðbólga einnig, þá eru alveg líkur á því að vanskil einstaklinga geti aukist.“