Innlent

Appelsínugulur litakóði kominn á Fagradalsfjall

Kristján Már Unnarsson skrifar
Eldstöðin Fagradalsfjall komin með appelsínugulan lit í viðvörunarkerfi fyrir alþjóðaflug.
Eldstöðin Fagradalsfjall komin með appelsínugulan lit í viðvörunarkerfi fyrir alþjóðaflug. Veðurstofa Íslands

Alþjóðaflugið hefur núna fengið viðvörun um að eldstöðin Fagradalsfjall sýni aukna virkni og vaxandi líkur á eldgosi. Það gerðist á ellefta tímanum í morgun þegar alþjóðlegum litakóða var breytt úr grænum, sem þýðir engar vísbendingar um gos, yfir í appelsínugulan, sem táknar vaxandi líkur á eldgosi.

Athygli vekur að farið var beint úr grænum yfir í appelsínugulan lit, en millistiginu gulum sleppt. Gulur litakóði táknar að eldstöðin sýni merki um virkni, umfram venjulegt ástand.

Appelsínugulur er næstefsta stig á kvarðanum. Efsta stigið er rauður, sem táknar að eldgos sé yfirvofandi eða hafið - líklegt sé að aska berist upp í lofthjúpinn.

Fagradalsfjall er eina íslenska eldstöðin sem núna er með annan litakóða en grænan. Þannig eru eldstöðvarnar Grímsvötn, Katla og Askja á grænum lit, en þær hafa allar verið að sýna ýmis merki um óróa undanfarin misseri.

Þótt eldgígarnir sem gusu í eldgosunum tveimur í Fagradalsfjalli hafi aðeins verið í um tuttugu kílómetra loftlínu frá Keflavíkurflugvelli höfðu eldgosin þar árin 2021 og 2022 nær engin áhrif á alþjóðaflug né notkun flugvallarins.


Tengdar fréttir

Litakóða fyrir Grímsvötn breytt í gult

Veðurstofan hefur breytt litakóða fyrir Grímsvötn í gult. Nokkrir jarðskjálftar stærri en 1,0 að stærð hafa mælst þar í eftirmiðdag og stærsti skjálftinn af þeim mældist 3,6 að stærð klukkan 14:24. Jarðskjálftavirkni er því umfram eðlilega bakgrunnsvirkni að sögn náttúruvársérfræðinga.

Eldstöðin Grímsvötn sett á appelsínugula viðvörun

Veðurstofa Íslands hefur hækkað viðvörunarstig vegna Grímsvatna úr gulum lit í appelsíngulan lit fyrir alþjóðflug, sem táknar vaxandi líkur á eldgosi. Þetta var gert klukkan níu í morgun eftir jarðskjálftahrinu í eldstöðinni fyrr um morguninn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×