Innlent

Sást í „púka“ hlaupa í burtu frá brennandi trampo­líni

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Foreldrar í Rimahverfi íhuga að blása lífi í nágrannavörslu vegna skemmdarverkanna.
Foreldrar í Rimahverfi íhuga að blása lífi í nágrannavörslu vegna skemmdarverkanna. Vísir/Vilhelm

Kveikt var í trampo­líni á skóla­lóð Rima­skóla síðustu helgi. Um var að ræða nýtt trampo­lín sem er ó­nýtt eftir verknaðinn. Aðal­varð­stjóri segir sjónar­votta hafa séð ung­linga á hlaupum frá vett­vangi. Í­búar í Rima­hverfi í­huga að koma á lag­girnar ná­granna­vörslu.

Um var að ræða trampo­lín sem ný­lega hafði verið sett upp á skóla­lóðinni. Val­garður Val­garðs­son, aðal­varð­stjóri lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu, segir í sam­tali við Vísi að sjónar­vottar hafi séð til ung­menna hlaupa frá svæðinu þegar eldurinn kom upp um helgina.

Málið sé til skoðunar en lög­regla hafi litlar upp­lýsingar undir hendi. „Hún liggur hjá okkur en það liggja engar upp­lýsingar fyrir. Það sáust bara ein­hverjir púkar hlaupa þarna frá þessu,“ segir Val­garður.

Skemmdar­verkin hafa vakið at­hygli íbúa í Rima­hverfi en í í­búa­hópi á sam­fé­lags­miðlinum Face­book veltir einn íbúa fyrir sér hvort ekki sé kominn tími á að í­búar leggist á eitt um að vakta hverfi sitt með for­el­dragöngum. „Loksins þegar Rima­skóli fær nýtt og flott dót er það skemmt,“ skrifar í­búinn.

Val­garður segir skemmdar­verk í hverfinu ekki vera að færast í aukana. Slík mál komi reglu­lega upp þar sem oftast sé að ræða fá­menna hópa ung­menna.

„Um­ræða um það hvort þetta sé að versna kemur upp af og til og það er ekkert þannig á­stand. Það er bara því miður þannig að það þykir oft spennandi að brjóta rúður og kveikja í og hlaupa í burtum, sem er ekki gott.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×