Bandaríska alríkislögreglan hóf leit að manninum eftir að hann birti myndband á samfélagsmiðli þar sem hann fullyrti að hann ætlaði að sprengja bílsprengju við alríkisstofnun í Maryland. Maðurinn var vaktaður vegna þátttöku sinnar í árás stuðningsmanna Trump á bandaríska þinghúsið 6. janúar 2021.
Daginn eftir birti maðurinn annað myndband þar sem hann var á vappi í hverfi Obama í Washington-borg. Þar sagðist hann leita að inngönguleiðum og góðum skotvinkli, að sögn AP-fréttastofunnar.
Áður hafði maðurinn deilt færslu Trump með því sem fyrrverandi forsetinn hélt fram að væri heimilisfang Obama á samfélagsmiðlinum Truth.
„Við höfum umkringt þessa aumingja. Sjáumst í helvíti, Podesta og Obama,“ skrifaði maðurinn. Podesta virtist vísun í John Podesta, fyrrverandi kosningastjóra Hillary Clinton í forsetakosningunum sem Trump vann árið 2016.
Leyniþjónustumenn, sem hafa góðar gætur á hverfinu, veittu manninum athygli og náðu að hlaupa hann uppi þegar hann reyndi að flýja.
Ákærður fyrir árásina á þinghúsið
Við leit í sendiferðabíl mannsins fundust tvær skammbyssur, um fjögur hundruð skot og sveðja. Tuttugu skotvopn voru skráð í eigu mannsins, þar á meðal skammbyssurnar tvær.
Maðurinn ók alla leið til Washington-borgar frá Washington-ríki á vesturströnd Bandaríkjanna. Eiginkona hans sagði yfirvöldum að hann hafi gert það til þess að þekkjast boð Kevins McCarthy, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, um að aðgang að áður óbirtum upptökum af árásinni á þinghúsið.
Washington Post segir að aðrir stuðningsmenn árásarmúgsins hafi hrakið manninn burt þar sem hann hafi virst óstöðugur. Hann er sagður hafa farið með samsæriskenningar sem eru kenndar við Qanon og haldið því fram að dauði konu sem var skotin til bana þegar hún reyndi að ráðast inn í sal fulltrúadeildarinnar hafi verið sviðsettur.
Yfirvöld sækjast nú eftir að maðurinn verði áfram í haldi. Hann var ákærður fyrir minniháttar brot tengd árásinni á þinghúsið. Saksóknarar segja að hann hafi verið á meðal þeirra stuðningsmanna Trump sem fóru inn í þinghúsið og komist alla leið að skrifstofu forseta deildarinnar.
Maðurinn er einnig sagður hafa haft uppi ógnandi ummæli um McCarthy, forseta fulltrúadeildarinnar og einn leiðtoga repúblikana, í myndbandi sem hann birti á samfélagsmiðli þegar hann ók til Washington-borgar.
Trump var kærður fyrir embættisbrot á þingi fyrir að æsa til árásarinnar á þinghúsið á sínum tíma en var sýknaður af félögum sínum í Repúblikanaflokknum sem þá stýrðu öldungadeild þingsins. Repúblikanar hafa sakað dómsmálaráðuneytið um að fara offari gegn stuðningsmönnum Trump sem réðust á þinghúsið. Trump hefur meðal annars hyllt árásarmúginn á kosningafundum sínum.