Innlent

Ótal út­köll vegna ölvunar og ein­stak­linga í annar­legu á­standi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Nætuvakt lögreglu var nokkuð annasöm.
Nætuvakt lögreglu var nokkuð annasöm. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti ótal útköllum vegna ölvunar og einstaklinga í annarlegu ástandi í gærkvöldi og nótt, meðal annars vegna einstaklinga sem lágu ofurölvi og ósjálfbjarga á jörðinni.

Þá var lögregla kölluð til vegna einstaklings í annarlegu ástandi sem var að ógna starfsmönnum og gestum hótels í póstnúmerinu 103. Hann var ekki gestur hótelsins og neitaði að fara að fyrirmælum lögreglu og var því vistaður í fangageymslu.

Annar var til vandræða í póstnúmerinu 105. Ógnaði hann starfsmönnum veitingastaðar og var handtekinn, meðal annars fyrir þjófnað og fyrir að fara ekki að fyrirmælum lögreglu.

Í Kópavogi var kona handtekinn fyrir að slá aðra með glasi í höfuðið. Neitaði hún að segja til nafns og var vistuð í fangaklefa. Rannsókn stendur yfir. Í yfirliti lögreglu er meiðsla fórnarlambsins ekki getið.

Lögreglu bárust tvær tilkynningar vegna hávaða frá gleðskap í heimahúsum og þá voru tveir handteknir grunaðir um ölvun við akstur. Einn hafi ekið bifreið sinni utan vegar og hinn reyndi að komast undan eftir að hafa ekið á aðra bifreið.

Tvær tilkynningar bárust um þjófnaði í verslunum, í hverfum 103 og 108 og þá var einn handtekinn fyrir nytjastuld á bifreið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×