Fótbolti

Kennir Guardiola um hnignun þýska landsliðsins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bastian Schweinsteiger segir að innkoma Peps Guardiola í þýska fótboltann hafi haft slæm áhrif á landsliðið.
Bastian Schweinsteiger segir að innkoma Peps Guardiola í þýska fótboltann hafi haft slæm áhrif á landsliðið. getty/Pressefoto Ulmer

Bastian Schweinsteiger segir að Pep Guardiola eigi sök á slæmu gengi þýska fótboltalandsliðsins á undanförnum árum. Hann segir að Þjóðverjar hafi tapað gildum sínum vegna Guardiola.

Þjóðverjum hefur gengið illa á síðustu stórmótum eftir að hafa orðið heimsmeistarar 2014 og komist í undanúrslit á EM 2016. Schweinsteiger, sem hætti í landsliðinu eftir EM 2016, kennir Guardiola að hluta til um ófarir þýska liðsins.

„Þegar Guardiola kom til Bayern München héldu allir að þeir þyrftu að spila hans tegund af fótbolta, með stuttum sendingum og öllu því. Við glötuðum gildum okkar,“ sagði Schweinsteiger.

„Ég held að flest önnur lið hafi horft á Þjóðverja sem baráttumenn. Við getum hlaupið endalaust. Sá styrkleiki hefur tapast síðustu 7-8 árin. Við gleymdum því og einbeittum okkur meira að því að spila fínan fótbolta. Það er ein ástæða fyrir hnignun okkar.“

Schweinsteiger lék undir stjórn Guardiolas hjá Bayern á árunum 2013-15. Spænski stjórinn stýrði Bayern í þrjú ár og vann þýska meistaratitilinn á öllum tímabilum sínum hjá liðinu.

Þýskaland datt út í riðlakeppninni á HM 2018 og 2022 og komst aðeins í sextán liða úrslit á EM 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×