Enski boltinn

Sagðir bjóða 86 milljónir í laun á viku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bernardo Silva fagnar langþráðum sigri Manchester City í Meistaradeildinni og þrennunni með liðsfélaga sínum Kalvin Phillips.
Bernardo Silva fagnar langþráðum sigri Manchester City í Meistaradeildinni og þrennunni með liðsfélaga sínum Kalvin Phillips. Getty/Tom Flathers

Bernardo Silva gæti þrefaldað launin sín hjá Manchester City samþykki hann tilboð frá Al Hilal í Sádí-Arabíu.

ESPN segir frá því að sádi-arabíska félagið sé að bjóða Portúgalanum 500 þúsund pund í vikulaun eða 86 milljónir króna á sjö daga fresti.

Silva fær 150 þúsund pund í vikulaun hjá Manchester City eða um 25,8 milljónir króna.

Það hafa verið vangaveltur um næstu skref hjá Silva sem hefur verið að hugsa sér til hreyfings eftir sex ár hjá Manchester City.

ESPN hefur upplýsingar um það að leikmaðurinn vilji helst spila áfram í Evrópu en að hann hafi þó ekki útilokað það að verða liðsfélagi þeirra Ruben Neves og Kalidou Koulibaly hjá Al Hilal.

Silva á enn eftir tvö ár af samning sínum við Manchester City og því mun nýja félagið þurfa að borga ensku meisturunum fyrir hann. Það verður væntanlega ekki mikið vandamál fyrir Sádana.

Bernardo Silva vann þrennuna með Manchester City á síðustu leiktíð en hann var með 4 mörk og 6 stoðsendingar í 34 deildarleikjum.

City er að bjóða Silva nýjan samning en hann fær aldrei sömu laun og hann gæti fengið hjá sádí-arabíska félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×