Viðskipti innlent

Biðjast af­­sökunar á aug­­lýsingum Olís sem teknar hafa verið úr birtingu

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Auglýsing Olís hefur vakið töluverða athygli í dag.
Auglýsing Olís hefur vakið töluverða athygli í dag. Olís

Aug­lýsingar á vegum Olís hafa vakið tölu­verða at­hygli á sam­fé­lags­miðlum í dag en ein­hverjir telja að lesa megi ó­heppi­legt mynd­mál úr þeim sem minni á hryðju­verka­á­rásir í New York þann 11. septem­ber árið 2001 þar sem flug­vélum var flogið inn í tví­bura­turnana í World Tra­de Center. Framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Pipar\TBWA biðst afsökunar vegna málsins og segir herferðina hafa verið tekna úr birtingu.

Um er að ræða aug­lýsingar á vegum olíu­fyrir­tækisins þar sem við­skipta­vinir eru hvattir til þess að dæla til góðs. Olís er styrktar­aðili Lands­bjargar og renna fimm krónur af hverjum lítra til Slysvarnar­fé­lagsins í dag auk þess sem fyrir­tækið býður viss af­sláttar­kjör bara í dag og fleiri vildar­punkta Icelandair til við­skipta­vina.

Aug­lýsingunni hefur verið deilt víða á sam­fé­lags­miðlum í dag og ljóst að tölu­verður fjöldi fólks upp­lifir hug­renningar­tengsl við hryðju­verkin árið 2001 vegna stað­setningu flug­vélar Icelandair og merki Olís bensín­stöðvanna. 

Vísir leitaði eftir viðbrögðum frá Olís vegna málsins. Auglýsingin er hönnuð af auglýsingastofunni Pipar\TBWA og í skriflegu svari til Vísis biðst Guðmundur H. Pálsson, framkvæmdastjóri, afsökunar vegna málsins. 

Stikur sem tákni hlé eða pásu

„Við hjá Pipar\TBWA gerðum fyrir um ári síðan auglýsingu fyrir Olís undir yfirskriftinni Dælum til góðs og hefur hún verið birt annað slagið síðan þá. Þar má sjá tvær vegstikur sem notaðar eru í öllu markaðsefni Olís og tákna hlé eða pásu, ásamt í þessu tilfelli flugvél Icelandair og lyklakippu frá Landsbjörg,“ skrifar Guðmundur.

„Nú hefur fólk séð út úr þessum auglýsingum tvo turna og flugvél, sem er ekki heppileg táknmynd. Það er að sjálfsögðu ekki sú táknmynd sem við vorum að leitast eftir í þessari auglýsingu og sendum við þakklæti til þeirra sem bent hafa á að þar geti vaknað hugrenningatengsl.“

Hann segir að auglýsingastofan vilji einnig koma á framfæri afsökunarbeiðni til þeirra sem tengjast auglýsingunni eða hafi túlkað hana á þennan hátt. Auglýsingaherferðin hafi nú verið tekin úr birtingu og muni koma í nýrri útgáfu.

Muni aldrei gera þessi mis­tök aftur

„Miðað hvað aug­lýsinga­stofur rukka fyrir svona vinnu, var aldrei móment þar sem ein­hver einn sagði að þetta væri nú ekki alveg nógu gott?“ skrifar einn net­verja sem deilir auglýsingu Olís. 

Þá eru aug­lýsingarnar einnig til um­ræðu inni á Face­book hópnum Markað­s­nördar. „Jæja, Þessi aug­lýsing, flug­vél, tveir turnar og rétt eftir 4. júlí,“ skrifar Sigurður Ingi R Guð­munds­son sem hefur máls á aug­lýsingunni.

„Hug­renninga­tengslin eru greini­lega til staðar hjá öllum, óháð því hvaða dagur ársins er... sá þetta strax,“ segir einn sem leggur orð í belg. Annar segir um ó­heppi­lega aug­lýsingu að ræða en lítið dugi að dæma Olís eða aug­lýsinga­stofuna sem komið hafi að verkinu.

„Þetta er ó­trú­lega ó­heppi­legt. Eitt­hvað sem getur svo auð­veld­lega farið fram­hjá fólki þó margir rýni, en þegar er bent á þetta er þetta svo aug­ljóst,“ skrifar Óskar Páll Elfars­son markað­s­nörd. „Það þýðir lítið að dæma Olís eða aug­lýsinga­stofuna eitt­hvað, það ætlar sér enginn að fara „þangað“ viljandi og þau munu aldrei gera þessi mis­tök aftur. Þannig lærum við bara öll og ferðumst á­fram...“

Frétt uppfærð kl. 14:23.

Fréttin hefur verið uppfærð og viðbrögðum forstjóra Pipar\TBWA bætt við. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×