„Þetta gerðist frekar fljótt. Þetta byrjaði í lok síðustu viku og var svo klárað í gær [í fyrradag]. Þetta voru stuttar viðræður sem gengu mjög vel og ég ákvað að skella mér á þetta,“ sagði Elvar í samtali við Vísi í gær.
Njarðvíkingurinn segir að margt heilli við PAOK þar sem honum er ætlað stórt hlutverk.
„Þetta eru líka aðstæður, að búa á flottum stað og svo er þetta lið í einni af sterkustu deild Evrópu og í sterkri Evrópukeppni þannig það var mjög mikið sem spilaði inn í,“ sagði Elvar sem segist vera að taka næsta skref á ferlinum. Á síðasta tímabili lék hann með Rytas Vilnius í Litáen.
„Þetta er klárlega skref upp á við um deild. Rytas var líka stórt félag en þetta er kannski öðruvísi hlutverk sem ég fæ. Ég myndi segja að þetta væri stórt skref upp á við hvað það varðar. Þeir ætla mér leiðtogahlutverk og ég á að vera aðalleikstjórnandi og með boltann meira í höndunum. Sóknarleikurinn verður meira á mínum herðum en hann var í vetur.“
Umboðsmaður Elvars er frá sömu borg og PAOK og hann hafði mikið um félagaskiptin að segja.
„Hann er frá Þessalóníku, hefur góð tengsl inn í liðið og þekkir vel inn á hluti þarna. Það hjálpaði mér með ákvörðunina,“ sagði Elvar en viðtalið við hann má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.