Ása Steinunn Atladóttir, verkefnastjóri hjá Landlækni, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. Rúv greindi fyrst frá.
Í gær var greint frá því að Hamborgarafabrikkunni í Kringlunni hafi verið lokað efitr að gestir staðarins urðu veikir eftir snæðing þar. Framkvæmdastjóri Fabrikkunnar sagði í samtali við fréttastofu að öllum ábendingum væri tekið alvarlega og búið væri að spritta staðinn hátt og lágt.
„Það er margt sem bendir til að þetta sé nóróveirra en við er um enn að bíða eftir sýnum úr fólki sem tilkynnti sig veikt. Við ættum að fá niðurstöður seinnipartinn á morgun,“
Óvenju margar tilkynningar
Það fór að bera á kvörtunum hjá heilbrigðiseftirliti frá fólki sem kvaðst hafa orðið veikt eftir að hafa borðað á Hamborgarafabrikunni síðustu helgi.
„Fljótlega hófust umræður á hópi á Facebook þar sem fólk fór að tjá sig um svipuð atvik. Í kjölfar frétta af málinu hafa síðan margir komið fram og sent ábendingar um að það hafi orðið veikt eftir að borða á staðnum. Heilbrigðiseftirlitið er að fara yfir þessar tilkynningar sem eru óvanalega margar,“ segir Ása.

Tilkynningarnar slaga nú í hundrað.
„Við vitum ekki nákvæmlega hve margir eru á bakvið þetta en það var brugðist við þessu af festu og öryggi, með því að veitingahúsið lokaði tímabundið. En starfsfólk staðarins gæti hafa verið veikt, maður veit ekki fyrir víst hvað hefur gerst en þetta er vandmeðfarið og leiðinlegt, bæði fyrir starfsfólk og fyrirtækið.“
Nóróveiran er afar smitandi veira sem veldur bólgum í maga og þörmum. Einkennin lýsa sér einna helst í heiftúðlegri magakveisu, ógleði, uppköstum og niðurgangi. Flestir ná sér að fullu án læknishjálpar. Til að komast hjá sýkingu er mælt með því að fólk þvoi á sér hendurnar með sápu og heitu vatni.
Ása bendir fólki á að kynna sér fræðsluefni um nóróveiru og rétt viðbrögð við smiti á vef Heilsuveru og Embættis sóttvarnalæknis. Þá má nálgast sérstakan fræðslubækling embættisins undir fréttinni.