Innlent

Fimm flug­vélum Icelandair snúið við vegna bilunar í kerfi Isavia

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Atvikið átti sér stað í dag.
Atvikið átti sér stað í dag. Vísir/Vilhelm

Bilun í tölvukerfi íslenska flugumsjónarsvæðisins hjá Isavia varð í dag til þess að snúa þurfti fimm flugvélum Icelandair á leið til landsins við.

Staðgengill upplýsingafulltrúa Isavia segir bilunina tilkomna vegna þess að hluti íslenska flugumferðarstjórnarkerfisins varð óvirkur, og til þess að gæta fyllsta öryggis var tekin ákvörðun um að loka kerfinu alfarið meðan unnið var að því að koma því upp aftur. Hann segir lokunina hafa tekið um klukkustund.

„Þetta varð til þess að við þurftum að snúa fimm vélum við sem voru á leið hingað til lands frá Evrópu,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair. Hún segir að flugvélum á leið frá Lundúnum, París, Genf og Zurich hafi verið snúið við til Glasgow. Þá hafi flugvél á leið frá Berlín verið snúið við til Bergen.

„Við erum að vinna að því að leysa úr þessu og koma öllum vélunum aftur til landsins,“ segir Ásdís í samtali við Vísi. Hún segir atvikið koma mögulega verða til þess að einhverjum flugferðum til Norður-Ameríku verði seinkað seinni partinn í dag.

Birgir Olgeirsson upplýsingafulltrúi Play segir lokunina ekki hafa orðið til þess að flugvélar Play hafi þurft að snúa við en segir bilunina hafa valdið fimm seinkunum á áætlunarflugi til Spánar og Ameríku. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×