Erlent

Tveir látnir í kjöl­far sprenginga á brúnni milli Rúss­lands og Krím­skaga

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þessi mynd af Kerch-brúnni var tekinn í kjölfar árásarinnar í fyrra.
Þessi mynd af Kerch-brúnni var tekinn í kjölfar árásarinnar í fyrra. AP

Tveir eru látnir og Kerch-brúnni, sem tengir Krímskaga við Rússland, hefur verið lokað eftir að sprengingar heyrðust þar snemma í morgun. Svo virðist sem látnu hafi verið að aka yfir brúna þegar þau létust en yfirvöld í Belgorod segja um að ræða par, mann og konu.

Dóttir parsins er sögð hafa verið með þeim í bílnum. Hún er sögð hafa slasast.

Yfirvöld í Rússlandi hafa ekki greint frá því hvað nákvæmlega gerðist og segja aðeins að brúnni hafi verið lokað vegna „neyðartilviks“. Þau hafa þó viðurkennt að hluti vegarins sé ónýtur en segja engar skemmdir hafi orðið á undirstöðum brúarinnar.

Ferjuferðir frá Kuban í Rússlandi og yfir til Krímskaga hafa einnig verið stöðvaðar tímabundið.

Talsmaður hermálayfirvalda Úkraínu í Odessa birti mynd á Telegram sem virðist sýna hluta brúarinnar brotinn en ekki liggur fyrir hvort umrædd mynd er raunveruleg né hvort hún tengist atvikinu í morgun.

Þá hefur þessu myndskeiði verið deilt á samfélagsmiðlum:

Brúin er eitt mikilvægasta samgöngumannvirki Rússlands, ekki síst vegna þess hversu táknrænt það þykir fyrir herferð Vladimir Pútín Rússlandsforseta að endurheimta landsvæði sem honum þykja tilheyra Rússum.

Ef um árás reynist að ræða er þetta í annað sinn sem ráðist er á brúna frá því að Rússar hófu innrás sína í Úkraínu. Stjórnvöld í Kænugarði viðurkenndu fyrr í þessum mánuði að hafa staðið að baki árás í október í fyrra, daginn eftir sjötugsafmæli Pútín, þar sem hluti brúarinnar var eyðilagður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×