Erlent

Skot­á­rás fyrir opnunar­leik HM í Auck­land: „Mótið heldur á­fram ó­haggað“

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Sérsveitarmenn að störfum á Queen Street í Auckland.
Sérsveitarmenn að störfum á Queen Street í Auckland. Skjáskot/Youtube

Þrír eru látnir eftir skotárás á byggingarsvæði í borginni Auckland í Nýja Sjálandi. Árásarmaðurinn er einn hinna látnu. Að sögn lögreglunnar er fjöldi fólks særður.

Árásin átti sér stað fyrir opnunarleik Nýja Sjálands og Noregs á heimsmeistaramóti kvenna í fótbolta. Hinir tveir látnu eru almennir borgarar. Sex aðrir eru særðir, þar af þrír alvarlega.

Árásin átti sér stað á Queen stræti þar sem fjöldi fólks var saman kominn. Árásarmaðurinn var vopnaður pumpu-haglabyssu. Hann fór inn í byggingu og lokaði sig af í lyftu eftir að hafa skotið á fólk. Þá heyrðust skothvellir. Óvíst er hvort að hann skaut sig sjálfur eða lögreglumenn.

Forsætisráðherrann Chris Hipkins ávarpaði blaðamannafund í kjölfar árásarinnar. Sagði hann að ekki yrði lýst yfir óvissu eða hættustigi vegna árásarinnar.

„Mótið heldur áfram óhaggað,“ sagði Hipkins á fundinum. „Íbúar Auckland og þau sem fylgjast með út um allan heim geta verið fullviss um að lögreglan hafi stöðvað ógnina. Það er ekki verið að leita að neinum öðrum í tengslum við árásina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×