Innlent

Guð­rún Sesselja skipuð héraðs­dómari

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Guðrún Sesselja Arnardóttir hefur verið skipuð hérðasdómari.
Guðrún Sesselja Arnardóttir hefur verið skipuð hérðasdómari. Vísir/Vilhelm

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hefur skipað Guðrúnu Sesselju Arnardóttur í embætti héraðsdómara með fyrsta starfsvettvang hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, frá og með 1. september næstkomandi.

Þetta segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Þar segir einnig að Guðrún Sesselja hafi lokið embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1996 og hún hafi öðlast réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi árið 2000 og fyrir Hæstarétti Íslands 2009.

Sjá einnig: Hæsta­réttar­lög­maður og sak­sóknari meðal átta í bar­áttu um dómara­starf

Frá ársbyrjun 2015 hefur Guðrún starfað sem lögmaður hjá embætti ríkislögmanns en þar áður starfaði hún á lögmannsstofu árin 2002 til 2014. Af öðrum störfum hennar má nefna að hún starfaði hjá embætti ríkissaksóknara árin 1997 til 2002 og sat í yfirkjörstjórn Suðvesturkjördæmis 2013 til 2017. 

Í tilkynningunni segir að Guðrún hafi á lögmannsferli sínum flutt mikinn fjölda mála, jafnt einkamál sem sakamál, fyrir öllum dómstigum hér á landi auk þess sem hún hefur komið að flutningi mála fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Þá hefur hún sinnt kennslu í lögfræði við íslenska háskóla sem og á námskeiðum til öflunar málflutningsréttinda fyrir héraðsdómi.

Auk Guðrúnar sóttu sjö aðrir um tvö embætti héraðsdómara. Ekki er búið að greina frá því hver hlaut hitt héraðsdómarastarfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×