Fótbolti

Mbappé ekki með PSG til Asíu og kominn á sölu­lista

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mbappé í leik með PSG á síðustu leiktíð.
Mbappé í leik með PSG á síðustu leiktíð. Antonio Borga/Getty Images

Framtíð Kylian Mbappé, framherja París Saint-Germain, er áfram til umræðu en franski landsliðsfyrirliðinn fór ekki með liðinu í æfingaferð til Asíu og er kominn á sölulista.

Frakklandsmeistarar París Saint-Germain eru á leið til Suður-Kóreu og Japan í æfingaferð. Mikla athygli vakti að Mbappé var hvergi sjáanlegur. 

Forráðamenn franska liðsins telja að Mbappé hafi þegar náð samkomulagi við Real Madríd um að ganga í raðir félagsins sumarið 2024 þegar samningur hans við PSG rennur út.

Mbappé var nálægt því að ganga í raðir Real á sínum tíma en framlengdi á endanum samning sinn við PSG. Sá samningur rennur út næsta sumar og virðist Real ætla sér að bíða eftir að geta fengið þennan magnaða leikmann án þess að þurfa borga fyrir hann.

PSG er ekki á þeim buxunum og ætlar sér að selja Mbappé í sumar í stað þess að missa hann frítt. Leikmaðurinn er hins vegar tilbúinn að sitja af sér samninginn til þess að fara frítt næsta sumar.

Mbappé er 24 ára gamall framherji sem hefur skorað 40 mörk í 70 leikjum fyrir A-landslið Frakklands. Í 325 leikjum fyrir Monaco og PSG hefur hann skorað 244 mörk og gefið 116 stoðsendingar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×