Í Skagafirði voru björgunarsveitir kallaðar út til aðstoðar ferðamanni sem höfðu slasast á fæti í Kotagili í Norðurárdal, rétt austan Varmahlíðar. Viðkomandi hafði fallið nokku innarlega í gilinu og erfitt að koma honum þaðan út. Björgunarsveitir fóru inn gilið, sem og upp í hlíðina til að tryggja fjarskipti á staðnum.
Eftir að hafa búið um þann slasaða var hafist handa við að bera hann í sjúkrabörum út gilið. Það tók nokkurn tíma, gilið þröngt, talsvert grýtt og fara þurfti yfir vatnsfall.
Um einum og hálfum klukkutíma eftir útkall var sjúklingur kominn í sjúkrabíl og fluttur til aðhlynningar.
Svipað óhapp fyrir ofan Eldfjallamiðstöðina
Skömmu síðar var Björgunarfélag Vestmannaeyja kallað út vegna svipaðs óhapps fyrir ofan Eldfjallamiðstöðina, þar sem ferðamaður á leið á Helgafell hafði slasast.
Ekki var hægt að koma sjúkrabíl að viðkomandi og fór björgunarfólk fótgangandi til að hlúa að og bera viðkomandi svo niður í sjúkrabíl. Um þrjátíu mínútum eftir útkall var sjúklingur kominn í sjúkrabíl.