Tilkynning um brunann barst slökkviliði rétt fyrir klukkan fjögur í nótt og var allt tiltækt lið þess kallað út. Aðgerðir standa enn yfir, þó tekist hafi að ráða niðurlögum eldsins snemma í morgun.
„Við fórum að draga úr þessu um sjö leitið í morgun. Sendum þá tvær stöðvar heim og fljótlega um átta fer þriðja stöðin og svo skipt út mannskap á fjórðu stöðinni þannig að dagvaktin tók við. Það er svo sem búið að slökkva en verið að leita af sér allan grun að búið sé að slökkva allar glæður,“ segir Lárus Björnsson, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

Vel gekk að ráða niðurlögum eldsins.
„Við enduðum á því að fá tæki frá Terra til að moka dótinu út og kláruðum að slökkva í því þar,“ segir Lárus.
Eldurinn kom upp í efnamóttöku Terra.
„En eldurinn var staðbundinn þar og fór ekkert í næstu hús.“
Mikil mildi sé að engin hættuleg efni hafi verið að finna í móttökustöðinni, enda geti verið erfitt að glíma við eld þar sem hættuleg efni er að finna.
„Sérstaklega þegar við vitum ekki hvernig efni við erum að eiga við. Þess vegna förum við eins varlega í þetta og við mögulega getum: Sendum reykkafara stutt inn til að skoða og vinnum þetta þannig að það sé allt öruggt. Sum efni eru líka þannig að þau hvarfast við vatn - það er ekki gott að fá vatn á sum efni - þannig að við vinnum þetta eins örugglega og við mögulega getum,“ segir Lárus.
Lögreglan hafi nú til rannsóknar hvernig eldurinn kviknaði.