Neytendur

Aug­lýsingar Svens ó­lög­legar

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Bannið lýtur bæði að auglýsingum á samfélagsmiðlum og á verslununum sjálfum.
Bannið lýtur bæði að auglýsingum á samfélagsmiðlum og á verslununum sjálfum. Egill Aðalsteinsson

Neytendastofa hefur úrskurðað auglýsingar nikótínpúðaverslunarinnar Svens ólögmætar og veitt fyrirtækinu fjögurra vikna frest til að fjarlægja þær.

Um er að ræða tvær auglýsingar sem hafa verið birtar á samfélagsmiðlum.

Annars vegar er það auglýsinga þar sem fígúran Sven dansar með nikótínpúða undir vörinni og heldur á púðadós í annarri hendinni. Yfirskriftin er „með 10.000 kodda í vasanum.“

Hins vegar er það auglýsing með yfirskriftinni „Meira en 150 tegundir og 11 búðir“ þar sem verið sé að vísa til vöruúrvals verslunarinnar á nikótínpúðum.

Þá voru auglýsingamerki framan á verslunum, sem sýna stórar dósir, úrskurðaðar ólögmætar. En í örsmáu letri á þeim skiltum segir að dósirnar séu nikótínlausar.

Gegn markmiðum laga

Bent er á auglýsingabann nikótínvara og markmið þeirra laga. Bannákvæðið myndi missa marks ef gildissviðið væri takmarkað við einungis beinar auglýsingar á nikótínpúðum eða framleiðendum þeirra.

„Þá var það niðurstaða stofnunarinnar að framangreindar auglýsingar feli í sér viðskiptahætti sem eru óhæfilegir gagnvart neytendum, enda um að ræða ávanabindandi vöru sem kann að hafa áhrif á heilsu notenda og er þar að auki bannað að auglýsa lögum samkvæmt,“ segir í tilkynningu Neytendastofu.

Er Svens bannað að auglýsa á þennan hátt og versluninni veittar fjórar vikur til að fjarlægja efnið að viðurlögðum sektum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×