Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá biskupsstofu, sem er undirrituð af Pétri G. Markan biskupsritara og Einari Huga Bjarnasyni hæstaréttarlögmanni.
Greint hefur verið frá því í fjölmiðlum að það hafi komið Drífu Hjartardóttur, forseta kirkjuþings, á óvart að komast að því á dögunum að Ragnhildur Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri biskupsstofu, hefði gert ráðningarsamning við Agnesi M. Sigurðardóttur, biskup Íslands, til 31. október 2024.
„Ég frétti af tilvist þessa samnings í síðustu viku, ég hafði ekki hugmynd um hann áður. Mér finnst það mjög undarlegt að undirmaður geti gert ráðningarsamning við yfirmann sinn. Við vorum aldrei látin vita af þessu, hvorki forsætisnefnd kirkjuþings né kirkjuþingið sjálft. Þetta kom mér mjög á óvart og er mjög sérstakt,“ sagði Drífa í viðtali við Morgunblaðið.
Látið hefur verið að því liggja að biskup sé umboðslaus þar sem skipunartími hennar rann út 1. júlí 2022 en samkvæmt lögum sem tóku gildi 1. janúar 2020 var biskup ekki lengur opinber embættismaður heldur starfsmaður þjóðkirkjunnar.
Í yfirlýsingu biskupsstofu er þannig bent á að í lögskýringargögnum sem fylgdu fyrrnefndu frumvarpi hafi verið tekið sérstaklega fram að því starfsfólki kirkjunnar sem skipað var tímabundið yrði boðinn ráðningarsamningur að skipunartíma loknum.
„Sökum þess að biskup Íslands fellur undir þessa skilgreiningu var gerður ráðningarsamningur við biskup, líkt og við aðra í sambærilegri stöðu, eða 1. júlí 2022. Aðrir kostir voru vitaskuld ekki tækir, enda hafði kjörstjórn ekki boðað til biskupskjörs fyrir lok skipunartímans,“ segir í yfirlýsingunni.
Þá segir að með tilliti til ofangreindra staðreynda sé engin réttaróvissa uppi um stöðu biskups, enda hafi annar biskup yfir Íslandi ekki verið kosinn. Biskup muni að öðru leyti ekki tjá sig um málið á meðan það er til meðferðar hjá úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar.