Innlent

Reykja­víkur­borg biðst vel­virðingar á töfum á sorp­hirðu

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Íbúi í Vesturbæ hvatti Reykjavíkurborg til að segja upp samningi við Terra um tæmingu gámanna og beita dagsektum þegar sorp safnast við þá í Kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.
Íbúi í Vesturbæ hvatti Reykjavíkurborg til að segja upp samningi við Terra um tæmingu gámanna og beita dagsektum þegar sorp safnast við þá í Kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær. Teitur Atlason

Reykjavíkurborg hefur beðist velvirðingar á töfum á sorphirðu sem áttu sér stað fyrr í mánuðinum. Vegna viðgerða á sorphirðubílum Terra seinkaði sorphirðu grenndargáma um sex til sjö daga.

Í tilkynningu segir að Reykjavíkurborg hafi verið tilkynnt í síðustu viku um að tæming grenndargáma kæmi til með að seinka um fjóra til fimm daga vegna bilana í sorphirðubílum og verktakar væru að störfum við tæmingar. Úr varð að tæmingu seinkaði um sex til sjö daga.

„Forstjóri Terra hefur fullvissað Sorpu og Reykjavíkurborg um að fyrirtækið muni vinna á tveimur bílum á vöktum næstu daga við að vinna upp þessar tafir. Eins er fyrirtækið með sorpbíl sem hirðir það endurvinnsluefni sem skilið hefur verið eftir á stöðvunum,“ sagði í tilkynningunni. 

Vinna upp tafirnar á laugardaginn

Þá segir að hirða á pappír og plasti á heimilum hafi að auki verið á eftir áætlun hjá sorphirðu Reykjavíkur. Nú sé verið að vinna á svæðinu frá Laugarnesvegi og Háaleitisbraut austur að Elliðaám. Allir vinnuflokkar vinni við söfnun á pappír og plasti á laugardaginn til að vinna upp tafirnar. 

Mikil umræða í kringum sorphirðu í Reykjavík hefur skapast undanfarið. Íbúi í Vesturbæ sagði í Kvöldfréttum Stöðvar 2 það hafa verið vandamál svo árum skipti að grenndargámar fyllist á augabragði og rusl safnast við þá í marga daga. Þá hvatti hann borgina til að segja upp samningi við Terra um tæmingu gámanna og beita dagsektum þegar sorp safnast við þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×