Erlent

Norður-Kóreu­menn sýndu „banda­ríska“ her­dróna

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Vel fór á með þeim Sergei Shoigu, utanríkisráðherra Rússlands og Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu á hersýningunni í gærkvöldi.
Vel fór á með þeim Sergei Shoigu, utanríkisráðherra Rússlands og Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu á hersýningunni í gærkvöldi. Vísir/AP

Norður-Kóreu­menn efndu til sér­stakrar her­sýningar í gær­kvöldi. Þar sýndu þeir nýjan búnað og voru þar í fyrir­rúmi nýir her­drónar sem taldir eru keim­líkir banda­rískum drónum, að því er fram kemur í um­fjöllun Guar­dian.

Þar segir að Kim Jong-un, ein­ræðis­herra landsins, hafi verið mættur auk Sergei Shoigu, varnar­mála­ráð­herra Rúss­lands og Li Hongz­hong, hátt settur em­bættis­maður í kín­verska kommún­ista­flokknum. Var her­sýningin haldin í til­efni þess að 70 ár eru um þessa mundir síðan Norður-Kóreu­menn og Suður-Kóreu­menn skrifuðu undir vopna­hlés­samninga í Kóreu­stríðinu.

Meðal þess sem sýnt var á her­sýningunni og skrúð­göngunni voru eld­flaugar landsins sem yfir­völd þar í landi hafa full­yrt að geti borið kjarna­vopn. Þá sagði norður-kóreski ríki­smiðillinn að til sýnis hefðu verið her­drónar sem væru þeir fyrstu sinnar tegundar sem norður-kóresk yfir­völd búa yfir.

Drónarnir þykja keim­líkir Global Hawk og Rea­pers drónum Banda­ríkja­hers. Áður höfðu japönsk yfir­völd sent frá sér yfir­lýsingu og varað við því að Norður-Kóreu­menn yrðu æ vaxandi öryggis­vanda­mál í Kyrra­hafi.

Norður-kóresk stjórn­völd hafa undan­farin ár í­trekað prófað eld­flaugar sínar í grennd við Japan. Þau japönsku hyggjast eyða háum fjár­hæðum í varnar­mál á næstu árum, tölu­vert hærri fjár­hæðum en undan­farin ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×