Viðskipti innlent

Brynjar Þór nýr fjár­mála­stjóri VÍS og Fossa

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Brynjar Þór Hreinsson, nýr fjármálastjóri sameinaðs félags VÍS og Fossa.
Brynjar Þór Hreinsson, nýr fjármálastjóri sameinaðs félags VÍS og Fossa.

Brynjar Þór Hreins­son hefur verið ráðinn fjár­mála­stjóri sam­einaðs fé­lags VÍS og Fossa. Þetta kemur fram í til­kynningu frá fé­laginu.

Þar segir að Brynjar hafi mikla reynslu af inn­lendum fjár­mála­markaði en hann hefur frá árinu 2018 starfað sem for­stöðu­maður eigna­stýringar Stapa líf­eyris­sjóðs. Þar áður var hann for­stöðu­maður sér­hæfðra fjár­festinga hjá Ís­lenskum verð­bréfum og for­stöðu­maður eigna­stýringar hjá Straumi fjár­festingar­banka.

Brynjar hefur auk þess fjöl­breytta reynslu af störfum er­lendis meðal annars sem for­stöðu­maður á lána­sviði Straums-Burðar­ás og verið bú­settur í London þar sem hann var fram­kvæmda­stjóri eigna­um­sýslu ALMC á­samt því að vera fram­kvæmda­stjóri CB Holding, sem var um tíma stærsti eig­andi West Ham United.

Hann er með MBA-gráðu frá Há­skólanum í Reykja­vík, próf í verð­bréfa­við­skiptum og BS-gráðu í við­skipta­fræði frá sama skóla.

Spennandi tímar fram­undan

„Fram­undan eru spennandi tímar hjá VÍS í kjöl­far stofnunar SIV eigna­stýringar og sam­einingar við Fossa fjár­festingar­banka. Sam­stæða þessara öflugu fé­laga býður upp á fjöl­mörg tæki­færi til vaxtar á trygginga- og fjár­mála­markaði. Ég er stoltur að taka við starfi fjár­mála­stjóra sam­stæðunnar og fullur til­hlökkunar að vinna með fram­úr­skarandi starfs­mönnum fé­laganna að á­fram­haldandi veg­ferð og sókn þeirra,” er haft eftir Brynjari Þór í til­kynningunni.

Hlut­hafar VÍS sam­þykktu kaupin á Fossum 14. júní síðast­liðinn en kaupin voru háð fyrir­vörum sem nú hefur öllum verið af­létt fyrir utan fyrir­vara um sam­þykki Fjár­mála­eftir­lits Seðla­banka Ís­lands fyrir því að VÍS fari með virkan eignar­hlut í Fossum fjár­festingar­banka hf. og Glym hf., og yfir 30 prósent eignar­hlut í T plús hf.

Brynjar Þór mun bera á­byrgð á fjár­málum sam­stæðu á­samt því að taka virkan þátt í við­skipta­þróun sam­einaðs fé­lags. Brynjar mun jafn­framt taka sæti í fram­kvæmda­stjórn þess. Haraldur Þórðar­son mun stýra rekstri sam­stæðunnar, Guð­ný Helga Her­berts­dóttir trygginga­rekstrinum, Stein­grímur Arnar Finns­son fjár­festingar­banka­starf­seminni og Arnór Gunnars­son SIV eigna­stýringu.

Sam­einað fé­lag verður öflugt fyrir­tæki á fjár­mála­markaði með víð­tækar starfs­heimildir til fjár­mála­þjónustu, að því er segir í til­kynningunni. Sam­einað fé­lag byggir á 106 ára sögu, breiðum við­skipta­manna­grunni, sterkum efna­hagi og er með víð­tæk tengsl við at­vinnu­líf og fjár­mála­markaði.

Um sé að ræða öfluga inn­viði fyrir fram­úr­skarandi þjónustu á sviði trygginga, fjár­festingar­banka, einka­banka, sjóða- og eigna­stýringar og annarrar sér­hæfðrar fjár­mála­þjónustu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×