Í myndbandsávarpi segir hann árásir á rússneskri grundu „óhjákvæmilegar, eðlilegar og algjörlega sanngjörn þróun“ á stríðinu milli landanna tveggja.
Rússneska varnarmálaráðuneytið greindi frá því í dag að tekist hafi að skjóta niður þrjá úkraínska dróna. Tveir drónar hæfðu byggingar í viðskiptahverfi Moskvu, þar sem tvö ráðuneyti eru til húsa. Flugvöllurinn Vnukovo var jafnframt lokað tímabundið í öryggisskyni. Árásin átti sér stað snemma morguns en enginn lést í árásunum.

Kveður við nýjan tón
Í ávarpi sínu frá úkraínsku borginni Ivano-Frankivsk segir Selenskí að Úkraínumönnum hafi vaxið ásmegin undanfarið.
„Í dag er 522. dagur svokölluðu sérstöku hernaðaraðgerða, sem rússnesk yfirvöld héldu að myndu standa yfir í nokkrar vikur,“ sagði Selenskí.
„Jafnt og þétt færist stríðið til baka á yfirráðasvæði Rússlands , á táknræna staði og gegn herstöðvum.“

Alla jafna hafa Úkraínumenn ekki lýst ábyrgð á árásum sem þessum innan rússneskra landamæra og má því merkja ákveðna breytingu á tóni Selenskís í ávarpinu. Hann ferðast nú um landið til að hvetja þjóð sína til dáða.
Í gær lýstu Rússar því yfir að þeir hefðu eyðilagt hernaðarlega mikilvæga stjórnstöð í úkraínsku borginni Dnipro. Særðust níu í eldflaugaárásum á borgina, þar af tvö börn.
Úkraínumenn hafa sett aukinn þunga í árásir gegn Rússum í Sapórisíjahéraði í suðausturhluta landsins en sóknir Úkraínumanna eru taldar hafa verið mjög kostnaðarsamar. Margir hermenn eru sagðir hafa fallið en raunverulegur fjöldi liggur ekki fyrir, þar sem ráðamenn í Úkraínu eru iðulega þöglir sem gröfin um mannfall.