Innlent

Veittist að fólki með stórum hníf

Eiður Þór Árnason skrifar
Fjölbreytt mál komu inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt og morgun. 
Fjölbreytt mál komu inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt og morgun.  Vísir/Vilhelm

Lögregla handtók einstakling grunaðan um að hafa veist að fólk með stórum hníf á höfuðborgarsvæðinu. Sá var handtekinn fyrir brot á vopnalögum og er sagður hafa verið í annarlegu ástandi.

Greint er frá þessu í dagbók lögreglunnar sem var einnig tilkynnt um einstakling sem hafði fallið í sjóinn. Þegar búið var að koma honum á þurrt land reyndist sá vera töluvert ölvaður og fundist það góð hugmynd að skella sér í sjósund.

Tilkynnt var um þjófnað úr verslunum miðborginni og Múlahverfi, auk innbrota í verslanir í miðborginni og Háaleitis- og Bústaðahverfi. Málin er sögð vera til rannsóknar.

Einnig var tilkynnt um grunsamlega mannaferðir þar sem einstaklingur reyndi að komast inn í húsnæði í miðborginni. Sá var farinn þegar laganna verðir komu á vettvang, að sögn lögreglu.

Beðinn um að lækka

Lögregla hafði afskipti af einstaklingi í annarlegu ástandi sem grunaður er um að hafa ráðist á annan. Hlaut sá minniháttar meiðsli og er málið sagt til rannsóknar.

Tilkynning barst um minniháttar umferðaróhapp sem afgreitt var með tjónaformi á vettvangi. Þá var kvartað undan samkvæmishávaða í fjölbýlishúsi í Laugardalnum þar sem húsráðanda var gert að lækka.

Einnig voru minnst tveir ökumenn stöðvaðir þar sem þeir voru ýmist grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða reyndust vera með fíkniefni og hnúajárn í ökutækinu, að sögn lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×